Fréttir

Blue Car Rental áfram stærsti styrktaraðili knattspyrnunnar í Keflavík
Knattspyrna | 8. maí 2025

Blue Car Rental áfram stærsti styrktaraðili knattspyrnunnar í Keflavík

Blue Car Rental áfram stærsti styrktaraðili knattspyrnunnar í Keflavík!

 

Blue Car Rental og Knattspyrnudeild Keflavíkur hafa skrifað undir nýjan styrktarsamning þar sem Blue verður áfram stærsti styrktaraðili félagsins næstu tvö árin. Samningurinn var undirritaður á stuðningsmannakvöldi Keflavíkur þann 6. maí og markar nýjan áfanga í langvarandi og farsælu samstarfi fyrirtækisins við knattspyrnudeildina.

 

Um er að ræða samning til tveggja ára og er hann einn sá stærsti í sögu Knattspyrnudeildar Keflavíkur. Samstarfið tryggir áframhaldandi sýnileika Blue Car Rental á öllum treyjum liðsins frá yngstu iðkendum til meistaraflokka ásamt mörgu öðru sem mun nýtast Knattspyrnudeild Keflavíkur vel á komandi árum. 

 

„Sem miklir Keflvíkingar eru við afar stoltir af þessu samstarfi sem er raunverulegt og mikilvægt samfélagssamstarf, sem nær langt umfram einhver auglýsingagildi“ segja bræðurnir Magnús Sverrir og Þorsteinn Þorsteinsson, eigendur Blue Car Rental.

 

„Það er okkur hjartans mál að styðja við öflugt íþróttastarf á Suðurnesjum og leggja okkar af mörkum til jákvæðra áhrifa í samfélaginu. Við hlökkum til að fylgjast með framhaldinu og vera hluti af þessari vegferð sem Keflavík er á.“

 

"Við erum afskaplega þakklát Blue Car Rental fyrir ómetanlegan stuðning í gegnum árin. Þetta samstarf er einn af hornsteinum þess starfs sem við vinnum að í dag og gerir okkur kleift að halda áfram að efla knattspyrnuna í Keflavík á öllum sviðum – frá yngstu iðkendunum sem stíga sín fyrstu skref á vellinum til leikmanna í meistaraflokki. Að hafa svona öflugan og tryggan bakhjarl sem deilir okkar sýn um mikilvægi öflugs íþróttastarfs skiptir sköpum fyrir okkur. Við erum sannarlega stolt af þessu samstarfi og hlökkum til að skrifa áfram þessa frábæru sögu með Blue Car Rental við hlið okkar"  segir Ragnar Aron Ragnarsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar Keflavíkur.

 

Nýtt vörumerki í sumar

 

Í ljósi þess að Blue Car Rental vinnur að endurmörkun vörumerkisins munu stelpurnar í Keflavík hefja tímabilið með auða framhlið á treyjunum, en verða jafnframt fyrstar til að bera nýja vörumerkið þegar það verður kynnt síðar í sumar. Karlaliðið mun hefja tímabilið með núverandi merki, en stefnt er að því að uppfæra treyjurnar þeirra í samræmi við nýtt útlit síðar í sumar.

 

Blue Car Rental hefur verið traustur bakhjarl knattspyrnunnar í Keflavík um árabil og með þessum nýja samningi er tryggt að það samstarf haldi áfram að blómstra.