1964 - Eina tap sumarsins í spennuleik gegn KR
Í sumar er þess minnst með ýmsum hætti að í ár eru 50 ár liðin frá fyrsta Íslandsmeistartitli Keflavíkur. Fyrir nákvæmlega 50 árum, þann 15. júlí árið 1964, lék liðið gegn KR á Laugardalsvelli. Leikurinn reyndist æsispennandi en Keflavík náði tveggja marka forystu eftir stundarfjórðungs leik. Það voru Rúnar Júlíusson og Jón Ólafur Jónsson sem gerðu mörkin en KR-ingar sneru leiknum sér í vil og sigruðu að lokum 3-2. Þetta reyndist vera eina tap Keflavíkur þetta sumar. Mikil eftirvænting var fyrir leikinn og áhorfendur fjölmenntu í Laugardalinn en þeir voru 3348.
Í frásögn Þjóðviljans var rætt um mikilvægi leiksins og fjölda áhorfenda.
"Það var greinilegt á fjölda áhorfenda að knattspymuunnendur hér litu á þennan leik sem nokkurs konar úrslitaleik í móti þessu, og stemningin á áhorfendapöllunum staðfesti að leikurinn væri a.m.k. ,,snertur" af úrslitaleik. Áhorfendur urðu ekki fyrir vonbrigðum með leikinn í heild, sem var skemmtilegur og oft fjörlega leikinn."
Fréttaritari Morgunblaðsins ræddi leiftrandi byrjun Keflavíkurliðsins í leiknum.
"Það voru ekki liðnar margar mínútur af leiknum, þegar hinn hárfagri miðherji Keflavíkur skoraði mjög óvænt, en fallegt mark utan úr horni vítateigsins. Við þetta var eins og losnaði um þá spennu, sem ávallt einkennir þýðingarmikla leiki og kemur stundum í veg fyrir allan samleik liðanna. En nú upphófst mikill og glæsilegur sóknarleikur Keflavíkurliðsins, þar sem sjá mátti skemmtilegustu og beztu knattspyrnu íslenzks liðs í langan tíma. Knötturinn var látinn ganga viðstöðulaust manna milli og sendingarnar voru furðu nákvæmar. Og þessi líflegi samleikur gaf sína uppskeru, þó ekki sem skyldi. Er stundarfjórðungur var af leik stóð orðið 2-0 á töflunni, eftir fallegt, en fremur laust skot Jóns Ólafs á kantinum."
Í Vísi var sett fram dramatísk saga um viðsnúning KR-inga í leiknum.
"„Eruð þið ekki úr Vesturbænum, drengir?" kallaði aldurhniginn sjóari í stúkunni í Laugardal í gærkveldi, þegar KR gekk sem verst í leiknum gegn Keflvíkingum, og það var ásökun í rödd gamla mannsins. KR hafði fengið tvö mörk á sig á tíu mínútum og liðið frá „bítlaborginni" með tvo bítla í liðinu, hafði hvað eftir annað leikið liðsmenn Vesturbæjarliðsins grátt. Kannski hafa liðsmenn KR heyrt þessa aðdróttun gamla mannsins, a.m.k. tóku KR-ingar völdin að miklu leyti í sínar hendur í seinni hálfleik og gerðu það, sem aðeins KR getur, snúið tapstöðu upp í vinning, þegar mikið liggur við."
Útsendari Tímans ræddi um Keflavíkurliðið og var sáttur við sumt en ekki annað...
"Keflvíkingar sýndu skínandi leik fyrstu mínútur leiksins og það brá oft fyrir laglegum samleik, en úthaldið brást, þegar á leikinn leið. Sigurður Albertsson og Magnús Torfason, framverðirnir, voru beztu menn liðsins, en einnig sýndi Rúnar bítill dágóðan leik, þótt ekki sé hann beint geðslegur með hárið niður á herðar eins og fyrri daginn."
Fréttamaður Alþýðublaðsins hreifst af leik Keflavíkur í upphafi leiksins.
"Það er heldur eki of mikið sagt, þótt fullyri sé, að leikur þessi hafi verið einn sá mest spennandi, milli íslenzkra liða nú um langt skeið. Hraði, tíðar skiptingar og furðu nákvæmar sendingar einkenndu hann, að minnsta kosti framan af, og þá fyrst og fremst ÍBK-liðið, sem í fyrri hálfleiknum sýndi um margt þá beztu knattspyrnu, sem ísl. lið hefur sýnt um langt skeið."
Hér að neðan birtum við Tímans um leikinn gegn KR. Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu.