Fréttir

1964 - Frægt fótbrot og sigur gegn Val
Knattspyrna | 14. júní 2014

1964 - Frægt fótbrot og sigur gegn Val

Í sumar er þess minnst með ýmsum hætti að í ár eru 50 ár liðin frá fyrsta Íslandsmeistartitli Keflavíkur.  Fyrir nákvæmlega 50 árum, þann 14. júní árið 1964, lék liðið þriðja leikinn í deildinni það árið.  Niðurstaðan varð 4-1 sigur gegn Val á Laugardalsvelli.  Fyrsta markið var sjálfsmark Valsmanna, næst skoraði Einar Magnússon og síðan skoraði Högni Gunnlaugsson úr vítaspyrnu.  Síðasta mark leiksins gerði Jón Jóhannsson en það mark reyndist sögulegt og er eitt þekktasta markið í sögu Keflavíkur.  Jón hafði nefnlega meiðst fyrr í leiknum og nokkrum dögum síðar kom í ljós að hann hafði fótbrotnað.   Svo fór að Jón gat ekki leikið næstu fjóra leiki Keflavíkur í deildinni.

Í frásögn Vísis af leiknum er minnst á meiðsli Jóns.
"Högni skoraði 3:1 úr vítaspyrnu á 1, mfn síðari hálfleiks. Mjög gott skot og öruggt. Vítaspyrnan kom vegna brots Gylfa markvarðar á Jóni Jóhannssyni, sem meiddist við þetta. Meiðslin á Jóni urðu til þess að hann varð að fara út á kantinn. Var hann það sem eftir var draghaltur og háði honum skiljanlega mikið. Samt var það hann sem skoraði, við mikil fagnaðarlæti, 4:1 fyrir Keflavík á 31. mín. Mjög laglega gert hjá Jóni, gott skot."

Nokkrum dögum síðar kom svo frétt í Vísi þar sem sagt er frá því að meiðsli Jóns voru alvarlegri en virtist í fyrstu.
"Jón Jóhannsson, hínn snjalli sóknarmaður Keflavíkurliðsins, verður varla með liði sínu næstu 5 vikurnar eða svo. Í leiknum gegn Val á dögunum varð hann fyrir skakkafalli og kom í ljós eftir leikinn, að Jón hafði fótbrotnað. Jón meiddist snemma í seinni hálfleik, en harkaði af sér og lék í stöðu v. útherja það sem eftir var, og skoraði jafnvel síðasta mark liðsins 4:1, og er það án efa einsdæmi, að fótbrotinn maður skori mark i knattspyrnuleik."

Fréttamaður Tímans kom Bítlabænum Keflavík að eins og var reyndar algengt í frásögnum af Keflavíkurliðinu þetta sumar.
"Valsmenn voru lítil hindrun fyrir Keflvíkinga á sigurbraut þeirra í íslandsmótinu I. deild. Í fyrrakvöld mættust liðin á Laugardalsvelli og Keflvíkingar unnu auðveldan sigur 4-1 gegn kraftlausu Valsliði, þar sem ekki örlaði á sigurvilja. Árni Njálsson, bakvörður Vals, kom Keflvíkingum í gang, þegar hann skoraði fljótlega í leiknum ettt furðulegasta sjálfsmark, sem ég hef orðið vitni að á knattspyrnuvelli, og var að öðru leyti leikinn grátt af Karli „bítli" Hérmannssyni í leiknum og krakkarnir á áhorfendapöllum sungu ,,Yeah, Yeah, Yeah".

Fréttamaður Alþýðublaðsins sagði þetta um bestu menn Keflavíkur í leiknum.
"Framverðirnir voru tvímælalaust beztu menn liðsins og voru þeir afar duglegir í fyrrakvöld, fljótir í vörn og fljótir upp til að styðja og byggja upp aðgerðir framlínunnar. Einnig var miðframvörðurinn Högni sterkur í stöðu sinni. Af framlínumönnum voru þeir Jón Jóh., Hólmbert og Karl einna virkastir, en skortir enn mjög að nýta tækifærin sem skyldi."

Í Þjóðviljanum var rætt um styrk Keflavíkurliðsins.
"Í síðari hálfleik speglaðist styrkur Keflvíkinga en það er góð þjálfun sem leyfir fullan hraða í 90 mínútur. Þeir sýndu hraða allan leikinn en hann kom bezt í liós þegar Valsmenn gátu ekki fylgt þeim eftir í síðari hálfleik, og þá sýndust Keflvíkingarnir mun fleiri. Við þessa eiginleika bættist svo samleikur sem oft gekk laglega fyrir sig, því að flestir þessara pilta eru farnir að tileinka sér það að flýta sér á góðan stað þegar þeir hafa ekki knöttinn. Yfirleitt voru þeir fyrri til en Valsmenn og þá sérstaklega er líða tók á leikinn. Þess vegna var leikur Keflvíkihga samfelldari, og betur uppbyggður."

Útsendara Morgunblaðsins þótti úrslitin sanngjörn en var ekki alveg sannfærður um getu Keflavíkurliðsins...
"Keflvíkingar verðskulduðu þennan sigur fyrir ákveðni sína og sigurvilja. Liðið sýndi nokkur falleg upphlaup sem voru kröftug og góð og miðuðu hratt og ákveðið að marki mótherjanna og tókust sum fullkomlega en önnur ógnuðu alvarlega og vörn Vals fékk nóg að starfa. Vörn ÍBK virðist hins vegar ekki ýkja sterk þó lánið væri yfir marki liðsins allan þennan leik. Heildarsvipur leiks Keflvíkinga er því ekki öruggur um of og þarna er enn ekki neitt yfirburðalið sem á öruggu sigra í vændum. En festan og ákveðnin er góð og liðinu ómetanleg, samfara viljanum til að berjast og vinna."

Hér að neðan birtum við Tímans um leikinn gegn Val.  Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu.