1964 - Markaveisla í fyrsta leiknum
Í sumar er þess minnst með ýmsum hætti að í ár eru 50 ár liðin frá fyrsta Íslandsmeistartitli Keflavíkur. Fyrsti leikur liðsins í deildinni árið 1964 var gegn Fram á Njarðvíkurvelli þann 20. maí, fyrir sléttum 50 árum. Þetta reyndist mikil markaleikur og að lokum vann Keflavík 6-5 sigur. Jón Jóhannsson gerði tvö markanna og þeir Jón Ólafur Jónsson, Einar Magnússon, Hólmbert Friðjónsson og Rúnar Júlíusson eitt mark hver. Lið Keflavíkur í leiknum skipuðu þeir Kjartan Sigtryggsson, Magnús Haraldsson, Ólafur Marteinsson, Gretar Magnússon, Högni Gunnlaugsson, Sigurður Albertsson, Jón Ólafur Jónsson, Hólmbert Friðjónsson, Jón Jóhannsson, Einar Magnússon og Rúnar Júlíusson.
Þegar frásagnir dagblaða um leikinn má m.a. sjá þetta í Alþýðublaðinu.
"Leiksins hafði sýnilega verið beðið með eftirvæntingu suður þar af áhugafólki um knattspyrnu. Þess bar áhorfendaskarinn ljóslega vott sem og hvatti „sína menn" óspart til dáða en sýndi einnig mótherjunum kurteisi og viðurkenningu á því sem þeir gerðu vel. „Stémmingin" við „hólmgóngu" þessa var því hin ágætasta. Ekki verður heldur annað sagt en að áhorfendurnir hafi fengið nokkuð fyrir snúð sinn, þar sem þetta var einn markasælasti leikur í íslandsmóti, en alls voru skoruð 11 mörk. Lætur því að líkum, að einkenni hans hafi, fyrst og fremst verið líf, fjör og spenna. Enda sparaði hvorugur annan meðan mátti. En barizt var af krafti meðan tími vannst til."
Í Morgunblaðinu kom gömul tugga um veðurfar á Suðurnesjum...
"Það er venjulegast rok og rigning þegar knattspyrnuleikir eru háðir á Suðurnesjum, en á miðvikudagskvöldið, þegar Fram og ÍBK háðu sinn fyrsta leik í íslandsmótinu, þá var logn á Njarðvíkurvellinum, en það rigndi mörkum."
Útsendari Morgublaðsins hafði hins vegar þetta að segja um Keflavíkurliðið.
"Keflavíkurliðið sýndi og sannaði að sigrar þess í vor hafa ekki verið nein tilviljun. Framlínan er betri hluti liðsins. Hún ræður yfir talsverðum hraða, allgóðri knattmeðferð og ódrepandi leikgleði. Allt eru þetta eiginleikar, sem ættu að geta fleytt liðinu langleiðina í úrslitaleikinn í haust, ef, já ef að hægt er að stoppa í götin í vörninni."
Fréttamaður Tímans sagði þetta um bestu menn Keflavíkur í leiknum.
"Bezti maður Keflavíkur í leiknum og jafnframt bezti maður vallarins var Jón Ólafur Jónsson á hægri kanti, geysilega hættulegur upp við markið, þegar því er að skipta. Annars átti Jón Jóhannsson einnig góðan leik og Högni var bezti maður varnarinnar."
Eins og áður sagði er 50 áranna sem liðin eru frá þessum fyrsta titli okkar Keflvíkingar minnst með ýmsum hætti í sumar. Meðal annars spila strákarnir í svörtum og hvítum búningum eins og Íslandsmeistaraliðið. Það er því við hæfi að vitna í niðurlag umfjöllunar Morgunblaðsins um leikinn gegn Fram.
"Dómari var hinn alltsjáandi Magnús Pétursson, en hann var svartklæddur sem er ótækt þegar annað liðið leikur í svörtum bolum, enda fékk Magnús margar sendingar sem ætlaðar voru Keflvíkingum."
Og í Tímanum stóð þetta...
"Dómari í leiknum var Magnús Pétursson og dæmdi vel að vanda, en hann hefði gjarnan mátt athuga að svört dómarapeysa hefur truflandi áhrif, þegar Keflvíkingar leika annars vegar."
Hér að neðan birtum við umfjöllun Alþýðublaðsins um leikinn gegn Fram. Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu.