1964 - Metfjöldi sá sigur gegn Skagamönnum
Í sumar er þess minnst með ýmsum hætti að í ár eru 50 ár liðin frá fyrsta Íslandsmeistartitli Keflavíkur. Fyrir nákvæmlega 50 árum, þann 31. maí árið 1964, lék liðið annan leik sinn í deildinni það árið. Þá var sett áhorfendamet á Njarðvíkurvelli þegar um 2000 manns sáu 2-0 sigur á liði ÍA. Það voru Hólmbert Friðjónsson og Einar Magnússon sem gerðu mörkin í leiknum, sitt í hvorum hálfleik. Lið Keflavíkur í leiknum skipuðu þeir Kjartan Sigtryggsson, Magnús Torfason, Ólafur Marteinsson, Gretar Magnússon, Högni Gunnlaugsson, Sigurður Albertsson, Jón Ólafur Jónsson, Hólmbert Friðjónsson, Jón Jóhannsson, Einar Magnússon og Karl Hermannsson.
Þegar frásagnir dagblaða um leikinn má m.a. sjá að í Vísi vekur fjöldi áhorfenda athygli.
"Það var metáhorfendafjöldi sem kom á Njarðvíkurvöllinn í gær til að horfa á „sína menn", er talið að um 2000 manns hafi komið þar saman við heldur léleg skilyrði til að horfa á og mætti bæta þau stórlega og er raunar krafa áhorfenda. Keflvíkingar brugðust heldur ekki þessu trausti og leikur þeirra lofar góðu, að vísu var hann ekki mjög snar í sniðum, en kröftugur og ákveðinn."
Útsendara Tímans þótti knattspyrnan sem sýnd var ekki upp á marga fiska...
"Það var hæg vestan gola og 1. flokks knattspyrnuveður, þegar dómarinn, Hannes Þ. Sigurðsson, blés til leiks á sunnudaginn, en knattspyrnan var ekki að sama skapi góð, lítið um það, sem kalla mætti „toppknattspyrnu" en mikið um ónákvæmar sendingar og leikmenn voru kyrrstæðir. Hér réði taugaspenna greinilega ríkjum og hvorugu liðinu tókst nokkurn tíma að ná eins góðum samleik og efni standa til."
Í Morgunblaðinu var bent á framfarir hjá Keflavíkurliðinu.
"Keflvíkingar skákuðu Skagamönnum á Njarðvíkurvellinum á sunnudaginn og hlutu tvö dýrmæt stig. Frábær markvarzla Kjartans og öryggi Magnúsar Torfasonar í stöðu hægri bakvarðar, vöktu óskipta athygli 2000 áhorfenda. Liðið, sem barðist fyrir tilveru sinni í I. deild í fyrra, er nú á hraðri leið upp á við, undir handleiðslu Óla B. Jónssonar þjálfara.."
Fréttamaður Alþýðublaðsins sagði þetta um bestu menn Keflavíkur í leiknum.
"Í liði IBK átti vörnin sterkan leik, en þar voru þeir Högni miðvörður og Kjartan markvörður traustustu haldreipin, sem aldrei brugðust. Högni er nú einn af okkar beztu miðframvörðum, óumdeilanlega. Og Kjartan Sigtryggsson sýndi nú, eins mikið öryggi í markvörzlu sinni, eins og hann var óöruggur gegn Fram á dögunum. Hann var alltaf viðbúinn og greip mjög vel inn í gang leiksins, þegar það þurfti við með föstum gripum og snöggum aðgerðum. En laga mætti hann útspyrnur sínar betur. Jón Jóhannsson miðherji var sá af framherjunum, sem hættulegastur var vegna hraða síns og leikni, þó illa mistækist honum að nota siðustu sekúndur leiksins."
Þjóðviljinn sagði úrslitin sanngjörn...
"Þessi úrslit verða að teljast sanngjörn eftir gangi leiksins. Keflvíkingar voru mun frískari og þegar þeir sóttu var mun meiri ógnun í áhlaupum þeirra en Skagamanna, sem tókst eiginlega aldrei að opna verulega vörn Keflvíkinga og skapa sér sér góð tækifæri. Keflvíkingarnir voru ívið harðskeyttari en Skagamenn og fengu fleiri aukaspyrnur á sig. Þó var leikurinn hinn prúðasti og átti Hannes Þ . Sigurðsson ekki í neinum vanda, og dæmdi með prýði."
Hér að neðan birtum við Morgunblaðsins um leikinn gegn ÍA. Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu.