2. flokkur áfram í bikarnum
Lið Keflavikur/Njarðvíkur í 2. flokki er komið í 8 liða úrslit bikarkeppninnar eftir 3-1 sigur á Fylki/Elliða á Njarðtaksvellinum. Það voru A-in þrjú, þeir Aron Freyr Róbertsson, Ari Steinn Guðmundsson og Ari Már Andrésson sem skoruðu fyrir okkar lið. Í næstu umferð mætir okkar lið annað hvort KA eða liði Aftureldingar/Hvíta riddarans á útivelli. Sá leikur fer fram 18. júlí.
Strákarnir léku einnig í Íslandsmótinu í vikunni og þar tapaði A-liðið 1-3 fyrir Fram í hörkuleik. Það var Róbert Freyr Samaniego sem skoraði fyrir Keflavík/Njarðvík.
Það gekk betur hjá B-liðinu sem vann góðan útisigur á Gróttu, 3-0. Óðinn Jóhannsson gerði tvö mörk í þeim leik og Birkir Freyr Birkisson eitt.
Næstu leikir 2. flokks verða mánudaginn 7. júlí en þá leika A- og B-liðið gegn sameiginlegu liði Selfoss, Hamars, Ægis og Árborgar. Leikirnir verða á Iðavöllum en A-liðið hefur leik kl. 18:00 og B-liðið kl. 20:00. Bæði lið eru í toppbaráttu í sínum deildum.