Fréttir

Knattspyrna | 14. september 2005

2. flokkur karla sigurvegari B-deildar

Skýrsla Einars Helga Aðalbjörnssonar formanns 2. flokks ráðs.

Í ársbyrjun var ákveðið að hætta samstarfi Keflavíkur og Njarðvíkur í 2. flokki karla.  Þá strax var ljóst að við yrðum að halda vel á spöðunum til að halda úti liði.  Árið 2004 þegar liðin voru í samstarfi var ekki með góðu móti hægt að ná í lið eftir verslunarmannahelgi og átti ég því von á hinu versta.  Ákveðið var að undirritaður ásamt Gunnlaugi Kárasyni tækjum að okkur að halda utan um flokkinn.  Sett var fram lausleg áætlun um hvað við ætluðum að gera og var ljóst að við yrðum að taka til hendinni.  Ákveðið var að bæta alla umgjörð liðsins,  því var ákveðið að kaupa ferða-og upphitunargalla og knattspyrnuráð lagði til nýja keppnisbúninga.  Þá kom strax fram áhugi á að fara í ferð til útlanda í sumar.

Fyrsta verkefni flokksins var að keppa í Faxaflóamótinu og gekk það sæmilega.  A-liðið fékk 9 stig í sínum riðli en hann vannst á 10 stigum og B-liðið vann sína keppni.  Þarna var ljóst að 25 strákar ætluðu að vera með og var því ákveðið að fara með tvö lið í Íslandsmótið.  Einnig var ákveðið á þessum tímapunkti að fara til Calpe á Spáni yfir verslunarmannahelgi.


Hart barist í heimaleik gegn Stjörnunni.
(Mynd:
Jón Örvar Arason)

Íslandsmótið hófst 29. maí á heimaleik gegn HK en það var eitt af þeim liðum sem við vissum að yrði keppinautur okkar um að komast upp úr B- deildinni.  Við unnum þennan leik 1-0 og gerðum okkur þá þegar ljóst að við færum upp úr B-deild en það var markmið númer eitt og þá þegar sett það takmark að vinna deildina.  Á þessum tímapunkti ákvað Aron Reynisson að ganga til liðs við Reyni Sandgerði en þaðan kom hann s.l. vetur.  Í hans stað kom Einar Orri úr 3ja flokki svo talan 25 var enn til staðar.  Eftir að takmarkið var sett þetta hátt töpuðum við aðeins einum leik í Íslandsmóti og var það síðasti leikur okkar í fyrri umferðinni.  Við lékum einn leik í Bikarkeppni KSÍ sem við töpuðum en þar höfðum ekki sett okkur takmark.  Þann 23. júlí höfðum við lokið fyrri umferð og þá þegar tapað 3 leikjum.  Þann dag var spilað við Þór Akureyri en fyrir þeim höfðum við tapað fyrsta leik mótsins.  Strákarnir komu það ákveðnir til leiks að við unnum 3-0 og gátum farið til Spánar nokkuð sáttir.  Það var léttur og góður hópur sem var saman á Spáni og margt skemmtilegt sem drengirnir gátu sér til gamans gert.  Markmið ferðarinnar var að æfa í bland við skemmtilegheit og þjappa liðinu saman.  Það tókst heldur betur en eftir þessa ferð gerðu strákarnir aðeins eitt jafntefli og það var gegn Haukum, ósanngjarnt.  Strákarnir enduðu mótið á því að vinna Selfoss 8-0 það sýnir að samheldni þeirra og keppnisskap var til staðar þó svo að þeir væru búnir að vinna mótið.


Lið 2. flokks eftir að sigur í B-deild var tryggður.
(Mynd: Jón Örvar Arason)

Þessi hópur er skipaður skemmtilegum einstaklingum hver á sinn hátt.  Það er með þennan flokk eins og þá yngri að hann yfirgefa strákar þegar þeir hafa náð 20. aldursári.  Í haust fara úr þessum flokki strákar sem ég á eftir að sakna en veit engu að síður að margir hverjir eiga eftir að spila áfram fyrir Keflavík.  Ég vil þakka þessum strákum fyrir: Jóa Hólm, Garðari Karls, Davíð Hallgríms, Þorsteini Atla, Brynjari Magnússyni, Óla Berry, Róbert Speegle og síðast en ekki síst fyrirliðanum Guðmundi Árna Þórðarsyni fyrir einstaklega skemmtileg og góð kynni.  Við þessa stráka segi ég: þið sýnduð það í sumar að þið getið spilað fótbolta og verið sigurvegarar, sýnið nú meistaraflokki að þið getið það.

Þessi árangur hefði aldrei náðst án þess að hafa góða þjálfara.  Kristinn Guðbrandsson hefur verðið með flokkinn eftir að samstarfinu við Njarðvík lauk og síðar kom Haukur Benediktsson til okkar á miðju sumri.  Þeir tveir virðast ná mjög vel saman og er árangur þeirra í samræmi við það. Þeir hafa sýnt þessu verkefni einstakan áhuga, Gunnlaugur Kárason hefur komið sterkur inn og hefur sinnt þessu mjög vel.

Það hafa margir einstaklingar og fyrirtæki lagt til aðstoð og fjármagn til að halda 2.flokki úti í sumar. Þessir aðilar hafa gert okkur kleift að stórbæta umgjörð liðsins sem er eitt af lykilatriðum góðs árgangur.  Þessum aðilum munum við færa frekari þakkir við tækifæri.

Einar Helgi