2. flokkur kominn af stað
2. flokkur Keflavíkur hóf leik í B-deild Íslandsmótsins á móti Fjölni í síðustu viku. Leikið var í Egilshöll þar sem grassvæði Fjölnis er ekki í góðu ástandi eftir veturinn. Liðið var þannig skipað í byrjun: Sigtryggur, Bjössi, Maggi M., Einar Orri, Viktor, Högni, Þorsteinn M., Fannar Óli, Óttar, Garðar E. og Gísli Grétars, ekki talið upp eftir stöðum. Leikurinn þróaðist þannig í upphafi að Fjölnismenn sóttu stíft á okkur og var eins og við værum ekki alveg mættir til leiks en það lagaðist. Eftir um það bil tuttugu mínútur fóru okkar menn í gang og var jafnræði með liðunum það sem eftir lifði hálfleiks. Þannig hélst það þangað til um 20 mínútur voru eftir en þá skoruðu Fjölnismenn. Við það vöknuðu okkar menn endanlega og jöfnuðu leikinn en það var Óttar sem skoraði markið. Síðustu mínúturnar vorum við einum manni færri þar sem Magnús M. fékk sitt annað gula spjald og var það fyrir mótmæli, dýrt spjald það!Það má segja að aðstæður hafi frekar verið Fjölnismönnum í hag þar sem þeir æfa þarna og við farnir að æfa á grasi.
Óttar skoraði gegn Fjölni (Mynd: Jón Örvar Arason)
Á þriðjudaginn spilaði 2. flokkur svo við Val á Hlíðarenda og lauk leiknum með 7-1 sigri Vals. Þessar tölur segja sem segja þarf um leikinn. Án afsakana þá vantaði 3-4 leikmenn í okkar lið en það eitt afsakar ekki neitt. Við erum með það góðan hóp að þeir leikmenn sem eru inn á vellinum hverju sinni eiga að geta unnið verkefnið. Við höfum lent í svona áður og rétt okkar hlut strax aftur og það gerum við. Í 2. flokki eru núna strákar sem hafa fengið að spreyta sig með meistarflokki og eiga þeir því að leggja sig alla í verkefni 2. flokks með það fyrir augum að sanna sig. Við erum að tala um 6-7 stráka í þessum flokk sem nú þegar hafa spilað æfingarleiki með meistaraflokki og ættu að vilja spila fleiri.
Næsti leikur 2. flokks er þriðjudaginn 5. júní kl. 20:00. Spilað verður á Iðavöllum á móti grönnum okkar í sameinuði liði Grindavíkur og Reynis Sandgerði. Í þessum nágrannaslag getur allt gerst og hvet ég fólk til að koma á leikinn.
Einar Aðalbjörnsson