Fréttir

Knattspyrna | 29. apríl 2004

3. flokkur á toppinn

Keflavíkingar sigruðu Stjörnuna í hörkuleik í Faxaflóamótinu 3-2 og eru efstir í sínum riðli þegar þeir eiga einn leik eftir.  Keflvíkingar byrjuðu betur og eftir 9 mínútna leik komust þeir yfir með marki frá Einari Orra Einarssyni.  Stjörnumenn jöfnuðu metin á 27. mínútu.  Keflvíkingar fengu vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks en markmaður Stjörnumanna sá við okkar manni og varði vel.  Staðan í hálfleik var 1-1. S trax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks komust Stjörnumenn yfir.  Á 51. mínútu dæmdi góður dómari leiksins réttilega vítaspyrnu á Stjörnumenn og Bjarki Frímannsson skoraði af öryggi úr henni, 2-2.  Það var síðan Björgvin Magnússon sem skoraði sigurmark leiksins á 65. mínútu og markið var af glæsilegri gerðinni.  Einar Orri vann boltann á miðjunni, sendi glæsilega sendingu á Björgvin sem sá að markmaðurinn var kominn of langt út úr markinu.  Björgvin skaut föstu og hnitmiðuðu skoti yfir markmanninn og í autt markið.  Glæsilegt mark.  Það gekk mikið á síðustu mínúturnar.  Stjörnumenn lögðu allt í sölurnar til að reyna að jafna metin og Keflvíkingar vörðust vel.  Eitthvað létu Stjörnumenn mótlætið fara í taugarnar á sér og var einum Stjörnumanni vísað af leikvelli með rautt spjald undir lokin.
 
Þetta var hörkuleikur tveggja góðra liða.  Keflvíkingar unnu þennan leik vegna þess að þeir börðust og höfðu viljann til að sigra.  Maður leiksins er án efa Teitur Albertsson markmaður Keflvíkinga.  Teitur hélt Keflvíkingum inn í leiknum með stórgóðri markvörslu í leiknum.
 
Byrjunarliðið: Teitur Albertsson, Einar Orri Einarsson, Natan Freyr Guðmundsson, Björgvin Magnússon, Fannar Óli Ólafsson, Garðar Eðvaldsson, Gísli Gíslason, Bjarki Frímannsson, Viktor Guðnason, Þorsteinn Þorsteinsson og Ari Haukur Arason.
Varamenn: Haraldur Bjarni Magnússon, Theodór Kjartansson, Miroslav Potkrajac, Helgi Eggertsson og Vilhjálmur Birnisson.