3. flokkur í undanúrslit bikarsins
3. flokkur tók á móti liði Vals í átta liða úrslitum bikarkeppninar á föstudag. Leikið var við toppaðstæður á aðalleikvanginum, ef eitthvað var full heitt í veðri! Vitað var að Valsstúlkur kæmu grimmar til leiks og ákveðnar að hefna fyrir tapið í Íslandsmótinu sem varð raunin. Leikur okkar var lagður upp með að leyfa þeim að koma og keyra sig svolítið, í leiðinni ætluðum við að vinna okkur hægt og sígandi inn í leikinn. Gekk þetta eftir en stúlkurnar voru þó full rólegar á köflum. Í heild sinni einkenndist leikurinn af mikilli baráttu sem einkennir bikarleiki, sama hvort það er í yngri flokkum eða meistaraflokki. Hvorugt liðið var að skapa sér veruleg færi sem heitið gat. Valur náði að skora mark í seinni hálfleik sem dæmt var af vegna rangstæðu við litla hrifningu þeirra. Nú fóru stelpurnar í Val að ókyrrast yfir því að ætlunarverk þeirra gekk ekki upp og meiri harka fór að koma í leikinn, t.a.m.var gula spjaldinu lift á loft á sitt hvort liðið. Allt stefndi í framlengingu og voru okkar stelpur betur undirbúnar ef til þess kæmi enda farið að draga af Valsstúlkum. En stelpurnar voru ekkert á því að fara út í neina framlengingu því fimm mínutum fyrir leikslok brunaði Karen Sævars upp hægri kantinn af miklu harðfylgi og kom boltanum fyrir mark Vals. Þar var Helena Rós mætt ásamt markverði Vals og virtist markvörðurinn ætla að ná knettinum á undan Helenu. En það fór á annan veg því Helena náði að vippa knettinum einhvern veginn yfir marklínuna áður en markvörður Vals kæmi höndum á boltann, við mikinn fögnuð okkar liðs. Valur reyndi nú hvað þær máttu til að jafna leikinn en stelpurnar okkur stóðust þessi áhlaup, vörnin var örugg og Anna í markinu öryggið uppmálað. Mikil gleði braust út er dómarinn flautaði til leiksloka enda voru stelpurnar að tryggja sér sæti í undanúrslitum.
3. flokkur, Bikarkeppni 8. liða úrslit: Keflavík - Valur: 1-0 (Helena Rós Þórólfsdóttir)
Keflavík: Anna Rún, Bergþóra, Helga, Rebekka, Ingibjörg, Birna, Eva, Hildur, Helena, Andrea, Karen S., Ingey, Sonja, Karen H., Fanney, Sigurbjörg
Myndir: Jón Örvar Arason
Mikil barátta einkenndi þennan bikarslag.
Helena skorar sigurmarkið.
Og gleðin leynir sér ekki!