3. flokkur kominn í úrslit
Stelpurnar í 3. flokki tryggðu sér sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins þegar þær sigruðu lið Hauka á Iðavöllum s.l. laugardag. Liðið lenti í öðru sæti í A-deild með 31 stig á eftir Breiðablik sem hlaut 36 stig. En það er rétt að minna á að liðið sigraði B-deildina s.l. sumar og árangurinn í sumar er því glæsilegur. Ásamt því að vera komnar þetta langt þá eru þær einnig búnar að tryggja sig í úrslitaleik bikarkeppninar en snúum okkur að leiknum.
Eins og oft áður í leikjum sínum þá virðist liðið ekki fara almennilega í gang fyrr en í seinni hálfleik og þessi leikur var engin undantekning hvað það varðar. Þrátt fyrir að vera með yfirhöndina allan fyrri hálfleik náðu stelpurnar ekki að skora og staðan í hálfleik 0-0.
Mynd: Fanney skoraði tvö mörk gegn Haukum
Strax á annarri mínútu seinni hálfleiks náði Helena Rós að brjóta ísinn þegar hún skoraði eftir að hafa fylgt eftir fyrirgjöf frá Birnu. Við markið losnaði um ákveðna spennu því stelpurnar vissu að sigur tryggði þeim endanlega annað sætið, ekki var hægt að stóla á úrslit í öðrum leikjum. Nú fór leikur liðsins að rúlla og annað mark leit dagsins ljós þegar Eva skoraði. Stelpurnar óðu hreinlega í færum og áður en yfir lauk hafði Eva skorað sitt annað mark og Fanney skorað tvö. Lokastaða þessa leiks var því 5-0 sigur.
Úrslitakeppnin hefst n.k. föstudag þegar stelpurnar leika gegn GRV en þær urðu efstar í B-deild í ár. Leikurinn fer fram á Sandgerðisvelli og hefst kl.17:30.
3. flokkur, Keflavík Haukar: 5-0 (Eva Kristinsdóttir 2, Fanney Kristinsdóttir 2 (ekki systur), Helena Rós Þórólfsdóttir)
Keflavík: Anna Rún, Ingibjörg, Helga Maren, Rebekka, Fanney, Eva, Sonja, Helena Rós, Birna Marín, Karen S., Andrea, Hildur, Sigrún, Ingey, Karen H.