3. flokkur tapaði í bikarúrslitunum
Knattspyrnusumrinu hjá Keflavíkurstúlkum lauk í gær þegar 3. flokkur lék gegn Breiðablik í úrslitaleik bikarkeppninar. Búist var við að leikurinn gæti orðið okkur erfiður gegn Íslandsmeisturunum sjálfum sem þekkja svona úrslitaleiki nokkuð vel.
Nokkurt jafnræði var með liðunum til að byrja með en þó voru Blikar að fá hættulegri færi. Það var síðan á 20. mínútu að Breiðablik skoraði fyrsta mark þessa leiks er ein Blikastelpan komst ein í gegn. Anna gerði vel í að verja boltann sem hrökk í stöng og út í teig, þar fylgdu Blikar vel á eftir og áttu ekki í vandræðum að skora. Annað mark þeirra var glæsilegt. Eftir fyrirgjöf frá hægri kanti átti einn Blikinn sem stóð ein og óvölduð ekki í vandræðum að skalla knöttinn í netið, algjörlega óverjandi fyrir Önnu í markinu. Breiðabliksstelpur voru nú komnar með fína stöðu, 2-0,. Áður en blásið var til hlés höfðu þær sett á okkur þriðja markið eftir smá varnarmistök hjá okkur. Með smá heppni hefðum við getað sett eitt til tvö mörk á þær og hefði verið gaman að sjá hvernig þær hefðu höndlað það að vera komnar undir pressu en það átti ekki fyrir okkur að liggja.
Í seinni hálfleik spilaði Breiðablik bara af miklu öryggi og skynsemi. Erfitt var að sækja á þær enda vörnin hjá þeim gríðarlega sterk. Er líða fór á leikinn fórum við að sækja á fleirum á kostnað varnarinnar en án árangurs. Við það opnuðust leiðir fyrir Blikana að sækja á okkur og skoruðu þær fjórða og síðasta mark þessa leiks er um fimm mínutur voru eftir af leiknum. Lokatölur 4-0 fyrir Breiðablik.
Þrátt fyrir þetta tap sem var þó kannski óþarflega stórt voru þær að gefa sig alla í leikinn og eiga gott hrós fyrir það. Breiðabliksliðið er bara einfaldlega langbesta liðið í þessum aldurflokki í dag og var hvergi veikan blett að finna á því. Óskum við þeim til hamingju með þessa titla sem þær hafa unnið. Stelpurnar okkar geta að sama skapi verið mjög ánægðar með sinn hlut í sumar og hversu langt þær hafa náð. Töluvert var af foreldrum sem og öðrum yngri flokka iðkendum sem mættu á leikinn með trommur og alle sammen og sköpuðu ágætis stemmingu. Þá var virkilega gaman að sjá að bæjarstjóri okkar, Árni Sigfússon og hans frú, sáu sér fært á að kíkja aðeins á leikinn. Að lokum: TIL HAMINGJU STELPUR MEÐ ÁRANGURINN Í SUMAR. ÁFRAM KEFLAVÍK.
3.flokkur, Úrslitaleikur í Bikarkeppni KSÍ
Keflavík - Breiðablik: 0-4
Keflavík: Anna Rún, Bergþóra, Rebekka, Helga Maren, Justyna, Birna Marín, Helena Rós, Eva, Fanney, Andrea, Karen S., Ingey, Sonja, Hildur, Ingibjörg, Karen H.
Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir