Fréttir

Knattspyrna | 23. ágúst 2003

4. flokkur í úrslitakeppnina

Keflvíkurliðið í 4.flokki náði þeim frábæra árangri á fimmtudaginn að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitillinn.  Keflavík þurfti fara á Selfoss og sigur þar hefði tryggt liðinu sæti í úrslitakeppninni, en jafntefli varð niðurstaðan og þá þurfti liðið að bíða eftir úrslitum í leik ÍBV og Leiknis.  Ef Leiknir hefðu unnið með átta marka mun hefðu þeir komist áfram og Keflavík setið eftir, en Leiknir vann 1-0 og Keflavík er komið í úrslitin.
 
Keflvíkingar urðu fyrir mikilli blóðtöku í vikunni þegar Þröstur Jóhannsson markvörður slasaðist á hendi og gat ekki leikið með en Þröstur hefur leikið frábærlega í sumar.  Auk þess var Einar Trausti Einarsson frá vegna meiðsla.

Leikurinn var varla byrjaður þegar Selfyssingar höfðu skorað.  Markið kom úr skyndisókn og var leikmaður Selfyssingar klárlega rangstæður en dómari leiksins sá ekki ástæðu til að flauta, enda hafði hann enga línuverði sér til halds og trausts og auk þess var markaskorarinn sonur hans!!  Eftir markið sóttu Keflvíkingar stíft og náðu loks að skora á 28. mínútu þegar Viktor Guðnason skoraði glæsilegt mark eftir frábært samspil.  Eftir markið róaðist leikurinn aðeins en Keflvíkingar voru samt mun betri.  Selfyssingar beittu skyndisóknum sem varnarmenn Keflavíkur áttu ekki erfitt með að stöðva.  Keflvíkingar hófu síðari hálfleik með stórsókn og markið lá í loftinu.  En í staðinn fyrir að Keflavík skoraði og kæmist yfir fengu Selfyssingar skyndisókn og úr henni skoruðu þeir og aftur var það rangstöðumark.  Keflvíkingar tvíefldust í mótlætinu og jöfnuðu aðeins 3 mínútum eftir mark Selfyssinga.  Þar var að verki Björgvin Magnússon sem skoraði eftir glæsilegt samspil, frábært mark. Fimmtán mínútum fyrir leikslok náðu Selfyssingar aftur að komast yfir og nú skoruðu þeir loksins löglegt mark.  Í stað þess að gefast upp héldu Keflavíkurstrákarnir áfram að sækja og heimamenn lögðust í vörn og reyndu að beita skyndisóknum.  Sóknarlotur Keflvíkinga báru loks árangur þegar 4 mínútur voru komnar fram yfir venjulega leiktíma.  Það var Einar Orri Einarsson sem skoraði markið mikilvæga og tryggði strákunum sæti í úrslitakeppninni.
 
Maður leiksins: Natan Freyr Guðmundsson.  Natan Freyr lék frábærlega í vörninni, stöðvaði flestar skyndisóknir Selfyssinga og hóf flestar sóknir Keflvíkinga eftir að hafa unnið boltann í vörninni.  Það segir ýmislegt um yfirferð Natans í leiknum að þau tvö gulu spjöld sem dómari leiksins sá ástæðu til að sýna Selfyssingum komu eftir ljót brot á Natani.