5. flokkur karla - 3 sigrar og tap gegn Fram
Keflavík sótti Safamýrarpiltana úr Fram heim á Íslandsmótinu í 5. flokki karla s.l. miðvikudag. Leikið var í A-, B-, C- og D-liðum. Leikmannahópur Keflvíkinga var heldur þunnskipaður þar sem mikill fjöldi leikmanna var í sumarfríi auk þess sem veikindi herjuðu á mannskapinn. Þurfti því að kalla á 9 leikmenn úr 6. flokki og einn leikmann úr 7. flokki til þess að manna fjögur lið.
A-lið: Keflvíkingar léku einmitt gegn Fram í A-liða keppninni á nýliðnu Esso-móti og steinlágu 1 - 6. Í þeim leik gerði rauðhærður Frampiltur nánast út um leikinn upp á sitt einsdæmi. Það mátti því búast við erfiðum leik. Sú varð raunin en Keflavíkurpiltar áttu stórgóðan leik og náðu að sigra 2 - 3. Ingimar Rafn Ómarsson kom Keflavík í 0 - 2 með tveimur mörkum. Framarar minnkuðu muninn áður en Birgir Ólafsson skoraði með sannkölluðum þrumufleyg, 1 - 3. Framarar minnkuðu enn muninn og fengu svo tækifæri til þess að jafna metin mínútu fyrir leikslok er þeir fengu mjög svo ódýra vítaspyrnu sem þeir misnotuðu. Þar kom orðatiltækið góða vel í ljós, "Illur fengur - illa forgengur"!
B-lið: Keflavíkurpiltar náðu sér engan veginn á strik í þessum leik. Þeir komust þó í 0 - 1 með glæsimarki frá Viktori Smára Hafsteinssyni en Framarar svöruðu með tveimur mörkum og sigruðu 2 - 1.
C-lið: Hér var nánast um einstefnu að ræða. Öruggur Keflavíkur sigur 0 - 5. Andri Daníelsson (Einarssonar) var í miklu stuði og setti 4 mörk. Aron Ingi Valtýsson gerði eitt, en það mark var sérlega glæsilegt. Þess má geta að Andri og Aron eru báðir leikmenn 6. flokks.
D-lið: Í leik D-liðanna var boðið upp á mikla spennu. Framarar komust í 1 - 0 en Keflvíkingar jöfnuðu. Aftur komust Framarar yfir en Keflvíkingar svöruðu enn og komust svo yfir 2 - 3. Framarar náðu að jafna 3 - 3 en á lokamínútu leiksins tryggði 7. flokks maðurinn Elías Már Ómarsson Keflavík sigurinn með sínu öðru marki í leiknum. Hin mörk Keflavíkur gerðu Hafliði Már Brynjarsson og Róbert Daníel Cutress
Maður dagsins: Ásgeir Elvar Garðarsson (Ketils Vilhjálmssonar). Ásgeir átti stórleik í vörn A-liðsins og hélt rauðhærða piltinum í Fram algjörlega niðri, en sá piltur sást vart í leiknum.