5. Flokkur karla - Haukar - Keflavík
Keflavík lék gegn Haukum í 5. flokki á Íslandsmótinu í knattspyrnu s.l. mánudag í A-, B- og C-liðum. Leikið var á gervigrasvellinum að Ásvöllum. Það er hreint með ólíkindum að ekki skuli boðið upp á GRASVÖLL þegar veður- og vallaraðstæður eru fyrsta flokks!Leikur A-liðsins fer væntanlega í sögubækurnar. Keflvíkingar komust í 0 - 1 með vægast sagt sérkennilegu marki. Keflvíkingar voru í sókn upp hægri vænginn þegar einn leikmanna Hauka varð fyrir smávægilegum meiðslum sem leikmenn virtust ekki taka eftir. Dómari leiksins lét leikinn ganga en bað leikmenn um að spyrna knettinum út af. Margir leikmenn virtust ekki heyra þessi skilaboð dómarans sem átti vitaskuld að flauta og stöðva leikinn sjálfur. En leikurinn gekk áfram og knötturinn barst fyrir markið þar sem Erlingur Helgason renndi knettinum í markið við litla varnartilburði Haukapilta, en flestir þeirra stóðu aðgerðarlausir þar sem þeir töldu að dómarinn hefði stöðvað leikinn. Dómarinn átti enga aðra kosti en að dæma markið gilt. Keflvíkingar sýndu þá sannan drengskap og leyfðu Haukapiltum að fara óáreittir upp völlinn og skora. FAIRPLAY! Staðan þar með 1 - 1 og lauk leiknum þannig.
B-liðið lenti í hörkuleik sem einkenndist af fjölda glataðra marktækifæra beggja liða. Leikar enduðu 0 - 1 fyrir Keflavík og var það Baldur Guðjónsson (Guðjónssonar) sem gerði sigurmarkið.
C-liðið átti ekki í miklum erfiðleikum með Haukana og sigraði 2 - 7. Mörkin gerðu Viktor Smári Hafsteinsson 2, Þorsteinn Logi Karlsson 2, Trausti Örvar Jónsson, Davíð Atlason og Elías Már Ómarsson. Þess má geta að Elías er leikmaður í 7. flokki!
Maður dagsins: Baldur Guðjónsson, spilaði sérlega vel í vörn sem sókn og gerði sigurmark B-liðsins.