Á toppnum eftir sigur á Fylki
Keflavík komst á toppinn í Pepsí-deildinni eftir góðan 2-1 sigur á sterku liði Fylkis á Njarðtaksvellinum í Njarðvík í gærkvöldi. Mörk frá Guðmundi Steinarsyni og Magnúsi Sverri Þorsteinssyni tryggðu sigurinn eftir að Fylkir hafði jafnað með marki frá Kjartani Ágústi Breiðdal.
Leikurinn hófst með færi frá Herði Sveins á 6. mínútu. Fylkir náði undirtökunum án þess þess að skapa sér mikið. Þeir fengu þó dauðafæri en Alen bjargaði meistaralega. Fylkir átti svo annað færi sem Ómar snjall markvörður okkar var með á hreinu. Guðmundur átti svo laglega sendingu inn fyrir vörn Fylkis þar sem Fjalar markvörður braut á Paul í góðu færi. Guðmundur skoraði af öryggi úr vítinu. Markið sem Guðmundur skoraði á 21. mínútu setti Fylki aðeins út af laginu og leikurinn jafnaðist mikið. Mikil barátta einkenndi það sem eftir lifði hálfleiksins.
Seinni hálfleikur byrjaði með látum. Hörður Sveins átti gott skallafæri strax á 47. mínútu og svo jafnaði Fylkir á 49. mínútu þegar Kjartan Ágúst Breiðdal skoraði af stuttu færi. Keflavík sótti í sig veðrið og skoruðu á 55. mínútu þegar Magnús Sverrir skoraði eftir snilldarsendingu frá Gumma Steinars. Mikil barátta það sem eftir var en Keflavík hélt út og tryggði sér toppsætið í deildinni.
Keflavík er á toppnum með fullt hús, níu stig eftir þrjá leiki og liðið er að spila fanta góðan bolta.
Næsti leikur okkar er gegn KR í Frostaskjólinu á þriðjudagskvöldið kemur.
-
Leikurinn var 13. heimaleikur okkar gegn Fylki í efstu deild og enn höfum við ekki tapað á heimavelli gegn Árbæingum. Keflavík hefur unnið 9 leikjanna og fjórum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 22-11 fyrir Keflavík.
-
Keflavík og Fylkir hafa nú leikið 25 leiki í efstu deild. Keflavík hefur unnið 10 leiki og Fylkir 7 en átta leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan í leikjum liðanna er nú 31-35 fyrir Fylkismenn.
-
Mark Guðmundar var 68. mark hans fyrir Keflavík í efstu deild og sjöunda mark hans gegn Fylki.
-
Magnús skoraði 19. mark sitt fyrir Keflavík í efstu deild og það fyrsta gegn Fylkismönnum.
-
Keflavík lék sinn fyrsta heimaleik í Njarðvík síðan 1982. Þá lék liðið þar gegn Víkingum 19. maí en Keflavíkurvöllur hafði komið illa undan vetri. Keflavík lék einnig heimaleiki í Njarðvík árin 1970 og 1974. Njarðvíkurvöllur var heimavöllur Keflavíkur frá árinu 1959 og þar til Keflavíkurvöllur var tekinn í notkun í júlí árið 1967. Keflavík lék þar alls 31 leik í efstu deild á árunum 1959 til 1967 og leikurinn í gær var 35. leikur okkar í efstu deild í Njarðvík og sá fyrsti á nýja vellinum, Njarðtaksvellinum.
-
Njarðvíkingar hafa svo sannarlega verið gestrisnir í gegnum árin en árið 1973 var Njarðvíkurvöllur heimavöllur ÍBV eftir gosið í Heimaey.
Fótbolti.net
"Ég er mjög ánægður með þessa byrjun, það er ekki hægt annað með fullt hús stiga," sagði Haraldur Freyr Guðmundsson miðvörður Keflavíkur eftir 2-1 sigur á Fylki í kvöld.
Keflavík hefur unniðalla sína þrjá leiki á mótinu og markið sem Fylkir skoraði í kvöld var fyrsta markið sem þeir fá á sig.
"Ég hefði auðvitað viljað hafa ekkert mark á okkur eftir þrjá leiki en við getum alltaf lent í að fá á okkur mörk og svöruðum í dag með tveimur mörkum."
Fréttablaðið / Vísir
Bæði lið höfðu ein liða unnið tvo fyrstu leiki sína á mótinu en Keflvíkingar sitja nú einir á toppnum eftir fyrstu þrjár umferðirnar. Keflavíkurliðið er vel skipulagt og skynsamt í öllum sínum aðgerðum. Varnarlega er liðið í góðum gír en sóknarlega er það þó ekki að sýna sömu tilþrif og undanfarin ár.
Það kemur ekki að sök þegar þeir eiga mann eins og Guðmund Steinarsson sem er í frjálsu hlutverki fyrir aftan framherjann. Hann sýndi í kvöld hvernig hann getur breytt leik með tveimur gullsendingum.
Ómar 6, Guðjón 5, Alen 6, Bjarni 7, Haraldur 8, Magnús Sverrir 6, Paul 6 (Einar Orri -), Hólmar Örn 6, Magnús Þórir 5 (Brynjar Örn 5), Guðmundur 7, Hörður 4 (Jóhann Birnir 5).
Morgunblaðið / Mbl.is
Keflvíkingar settust niður þegar sumri fór að halla í fyrra og settu stefnuna á Íslandsmeistaratitilinn árið 2010. Rökin fyrir þeirri markmiðasetningu eru eiginlega augljós. Keflavíkurliðið hefur á undan
M: Guðjón, Haraldur, Paul, Guðmundur.
Víkurfréttir / VF.is
"Þetta var bardagaleikur á móti frábæru Fylkisliði en við stóðumst álagið að mestu að minnsta kosti nóg til þess að sigla heim sigri," sagði Willum Þór Þórsson þjálfari Keflvíkinga eftir leikinn. "Ég er fyrst og fremst ánægður með baráttuna og vinnusemina og hvernig við sem lið unnum okkur inn í leikinn. Við áttum erfitt uppdráttar á upphafsmínútunum og vorum að taka vondar ákvarðanir og gefa þeim nánast boltann en strákarnir töluðu sig saman og unnu sig inn í leikinn og það er gríðarlegur styrkur," sagði Willum sem að vonum var ánægður eftir leikinn.
Pepsi-deild karla, Njarðtaksvöllurinn, 20. maí 2010
Keflavík 1 (Guðmundur Steinarsson víti 21., Magnús Sverrir Þorsteinsson 55.)
Fylkir 1 (Kjartan Ágúst Breiðdal 49.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Paul McShane (Einar Orri Einarsson 87.), Hólmar Örn Rúnarsson, Magnús Þórir Matthíasson (Brynjar Örn Guðmundsson 71.), Guðmundur Steinarsson, Hörður Sveinsson (Jóhann Birnir Guðmundsson 71) .
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Bojan Stefán Ljubicic, Sigurður Gunnar Sævarsson, Ómar Karl Sigurðsson.
Gult spjald: Haraldur Freyr Guðmundsson (87.)
Dómari: Erlendur Eiríksson.
Aðstoðardómarar: Áskell Þór Gíslason og Sverrir Gunnar Pálmason.
Eftirlitsdómari: Ingi Jónsson.
Áhorfendur: 1262. Flestir Keflvíkingar og stóðu sig mjög vel eins og vanalega.
Einkennandi mynd fyrir leikinn, baráttan allsráðandi.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)