Æfingaferð til Danmerkur
Leikmenn meistaraflokks karla fara í æfingaferð til Danmerkur 22.- 26. apríl nk. Farið verður með 22 leikmenn en auk þess fara þjálfarar, aðstoðarmenn og fararstjórar og telur hópurinn hátt í 30 manns. Einungis verður gist í 4 nætur og tíminn nýttur vel til æfinga og leikja. Verið er að undurbúa tvo æfingaleiki og er Guðmundur Steinarsson fyrirliði Keflavíkur að undirbúa þann þátt en hann lék í Danmörku um tíma. Guðjón þjálfari hefur ákveðið að vera með tvær æfingar á dag, kl. 10:00 og kl. 16:00 en leikdagana verður æft kl. 10:00.
Hópurinn mun dvelja í Farum sem er bær í nágrenni Kaupmannahafnar en þar er Farum Park íþrótta- og ráðstefnumiðstöðin sem býður íþróttahópum upp á 4-stjörnu aðstöðu. Leikmenn hafa sjálfið unnið hörðum höndum við að afla fjár til ferðarinnar og eru m.a. að gefa út dagatal til að safna í ferðasjóðinn. Leikmenn sjá um að greiða kostnað við gistingu og fæði en Knattspyrnudeild sér um annan ferðakostnað. Það hefur verið gaman að fylgjast með því hvað leikmenn eru einbeittir og áhugasamir við að vinna að undirbúningi ferðarinnar. Það er í takt við það sem þeir eru að gera á æfingum og í leikjum þar sem einbeitni og vilji ráða ríkum ásamt fínum félagsanda. ási