Fréttir

Knattspyrna | 11. júlí 2007

Af 2. flokki karla

Þó nokkuð sé síðan að settur var fram pistill um 2. flokk þá hefur mikið gerst þar að undanförnu.

Þann 18. júní vann flokkurinn sannfærandi sigur gegn Haukum og allt var þetta að koma.  Þá gerist það að Ingvar Guðmundsson hættir sem þjálfari flokksins.  Brotthvarf Ingvars kom undirrituðum og Kjartani Steinarssyni, allsherjarreddara 2. flokks, í opna skjöldu.  Þar sem þjálfarar eru alls ekki á lausu á þessum tíma var ekki um annað að ræða en að Kristján og Krinstinn þjálfarar meistaraflokks stjórnuðu flokknum. Strákarnir virtust ekki hafa alveg áttað sig á hlutunum því þeir töpuðu fyrir Víking/Berserkjum 2-1 á æfingarsvæði Víkings. Leikurinn var í alla staði lélegur að sögn þeirra sem hann sáu.

Sunnudaginn 1. júlí var spilað á æfingarsvæðinu við Iðavelli gegn Þór frá Akureyri.  Leikurinn var vel spilaður af okkar mönnum.  Við unnum leikinn 3-1 og skoruðu „hreindýrin“ Högni og Óttar með skalla (hornum) og Fannar Óli skoraði þriðja markið.  Kristján Guðmundsson stjórnaði leiknum.

Nú hefur Marco Tanacic tekið við flokknum út tímabilið en hann er okkur Keflvíkingum vel kunnur.  Marco spilaði í mörg ár með Keflavík en hann þjálfaði KS á Siglufirði með góðum árangri í fimm ár.  Hann og sonur hans Mílos komu hingað til lands 30. júní en Mílos mun æfa og spila með flokknum.  Væntingar vegna komu Marco eru miklar hjá mér og Kjartani þar sem við erum sammála um að hann virðist strax ná sérlega vel til strákanna.

Á mánudag var leikur gegn Aftureldingu og var spilað á aðalvellinum við Sunnubraut sem er í mjög góðu ástandi og mikill munur fyrir strákana að spila þar.  Ekki byrjaði þetta nú vel því eftir ca. 6 sekúndur var Afturelding búin að skora 1-0.  Þetta virtist þó ekki slá strákana neitt út af laginu, þeir nánast áttu allan leikinn.  En eitt er að eiga leikinn og annað að skora.  Það gekk ekkert upp þegar komið var upp að marki andstæðinganna og gegn gangi leiksins komst Afturelding í 2-0.  En Bjössi minnkaði strax muninn fyrir okkur og var staðan 1-2 í hálfleik.  Persónulega fannst mér síðari hálfleikurinn lakari af okkar hálfu en þrátt fyrir mitt álit skoruðu strákarnir tvö mörk í honum.  Mörkin gerðu Bjössi og Einar Orri og var mark Einars sérlega flott og skorað á lokamínútu leiksins.

Við eigum leik aftur á fimmtudag kl. 20:00 hér heima gegn Haukum í bikarkeppninni.  Von mín er að strákarnir feti í fótspor meistaraflokks og klári bikarinn.

Einar Helgi Aðalbjörnsson