Af 3. flokki kvenna
Stelpurnar í 3. flokki, 11 manna liðum, spiluðu gegn Þrótti Reykjavík í Laugardalnum í gærkvöldi. Fyrri hálfleikur einkenndist af baráttu um að ná tökum á miðjunni og höfðu Þróttarar ívið betur. Fyrsta hættulega færið var þó okkar; Karen komst ein í gegn og átti bara markmanninn eftir en skot hennar hafnaði í stöng. Stuttu seinna fengu heimamenn hornspyrnu og upp úr henni áttu þær skalla í þverslá. Meira markvert gerðist ekki og staðan í hálfleik 0 - 0. Í þeim seinni reyndu bæði lið að skapa sér færi en þau skot sem rötuðu á mörk beggja liða höfnuðu í höndum markvarðanna. Um miðjan hálfleikinn dró til tíðinda þegar Þróttarar áttu háa sendingu inn í teig og varnarmaður hugðist skalla frá marki en ekki vildi betur til en að knötturinn fór yfir markmanninn sem hafði komið út á móti. Inn fór boltinn og staðan orðin 1 - 0 fyrir heimamenn. Um tíu mínútum seinna fengum við tækifæri til að jafna metin þegar okkur var réttilega dæmt vítaspyrna. Hún nýttist ekki og boltinn fór yfir markið. Það sem eftir lifði leiks áttum við mun hættulegri færi og hefðum með smáheppni getað jafnað og jafnvel stolið sigrinum en heppnin var ekki með okkur í þessum leik.
3. flokkur kvenna, 11 manna lið:
Þróttur R. - Keflavík: 1 - 0
Stúlka leiksins: Mist Elíasdóttir
Elís Kristjánsson, þjálfari