Af bikar og fleira hjá 2. flokki
Strákarnir í 2. flokks liði Keflavíkur/Njarðvíkur eru komnir í undanúrslit bikarkeppninnar. Þetta varð ljóst eftir góðan 2-0 sigur á KA á Akureyri í gær. Framlengja þurfti leikinn en Jón Tómas Rúnarsson og Leonard Sigurðsson skoruðu í framlengingunni og okkar strákar eru þar með komnir í undanúrslit sem verða seinni hluta ágúst.
Liðið okkar hefur reyndar verið með annan fótinn á Akureyri en strákarnir léku þrjá leiki þar um síðustu helgi. A-liðið vann KA örugglega 4-1 en Ari Steinn Guðmundsson gerði tvö mörk í þeim leik og Árni Gunnar Þorsteinsson og Óðinn Jóhannsson eitt mark hvor. Hjá B-liðunum höfðu okkar piltar einnig betur en sá leikur fór 3-2. Þorsteinn Þengill Helgason og Markús Már Magnússon skoruðu í leiknum en einnig gerðu KA-menn sjálfsmark.
Daginn eftir lék A-liðið gegn Þór og tapaði 3-2 þar sem sigurmark heimamanna kom í uppbótartíma. Eiður Snær Unnarsson og Anton Freyr Hauksson gerðu mörk Keflavíkur/Njarðvíkur í leiknum.
Næstu mótherjar okkar verða svo enn og aftur KA-drengir en A- og B-lið félaganna mætast laugardaginn 26. júlí og að þessu sinni á heimavelli okkar.