Af Geoff og Buddy
Nú er að koma endanleg mynd á hópinn okkar. Geoff Miles kemur á föstudaginn en hér má sjá hvar hann spilaði í USA áður en hann kom til Íslands. Þess má geta að liðið hjá University of Missouri - Kansas City sem hann spilaði með er kennt við kengúrur. Hann spilaði með Haukum síðasta sumar en sögur herma að Grindvíkingar hafi haft augastað á honum eftir mót í fyrra. Miles er varnarmaður. Verið er að gera íbúðina hans klára, en hann kemur til með að búa mitt á milli Reykjaneshallarinnar og fótboltavallarins, svo ekki ætti hann að villast í bænum. Því miður hef ég ekki séð hann á vellinum ennþá en ég seldi honum úr í fyrra þegar hann spilaði með Haukum, svo mér verður eflaust kennt um það ef hann mætir of seint á æfingar...
Fljótlega fer liðið í æfingaferð til Spánar en þar bætist Buddy Farah við. Eftir því sem ég best veit þá eru foreldrar Buddy frá Libíu en hann hefur alla tíð búið í Ástralíu. Svo við erum að fá tvo leikmenn sem tengjast eitthvað kengúrum. Buddy hefur verið fastur maður í landsliði Líbíu en þeir eru númer 84 á heimslistanum og féllu um fjögur sæti á nýjasta listanum. Þess má geta að Ísland er númer 97 á sama lista. Okkur sárvantar íbúð fyrir Buddy svo ef einhver sem les þetta lumar á einni íbúð þá endilega hafið samband við félagið, eða undirritaðan. Buddy er búinn að gera 3ja ára samning við okkur svo hann kemur til með að vera hér í góðan tíma.
Áfram Keflavík
Rúnar I. Hannah
Mynd: Svona leit Geoff út þegar hann spilaði með Kengúrunum í háskóla.