Af landsliðum og úrvalsliðum
Hólmar Örn Rúnarsson er í landsliðshópi Íslands sem leikur vináttulandsleik gegn Aserbajdan þann 20. ágúst. Þetta er skemmtileg viðurkenning fyrir Hólmar sem hefur verið að leika geysivel með Keflavík í sumar en hann hefur einu sinni verið varamaður í A-landsleik án þess að koma inn á. Sama dag leikur U-21 árs landsliðið vináttuleik við Dani og þar er Hallgrímur Jónasson okkar fulltrúi en hann hefur verið fastamaður í liðinu undanfarin misseri.
Hólmar Örn kom líka við sögu þegar KSÍ og Landsbankinn veittu viðurkenningar fyrir 8.-14. umferð Landsbankadeildarinnar. Hann var þar í úrvalsliði umferðanna ásamt Guðjóni Árna Antoníussyni. Þeir piltar eru vel að þeirri viðurkenningu komnir en Guðjón var einnig í úrvalsliði fyrstu sjö umferða deildarinnar.
Við óskum okkar mönnum til hamingju með árangurinn og óskum þeim og félögum þeirra í landsliðunum góðs gengis í leikjunum framundan.
Hólmar Örn er í öllum liðum þessa dagana.
(Mynd: Jón Örvar)