Af leikjum 2. flokks
Aðalvöllurinn, hátalarakerfi og fleira fólk í stúkunni en á leikjum liða í 2. deildinni. Þetta mætti leikmönnum 2. flokks Keflavíkur þegar leikurinn fór fram. Það tók leikmenn FH aðeins 13 mínútur að skora fyrsta markið. Einni mínútu síðar lá boltinn í netinu, FH komið í 2-0. Á 27. mínútu skoruðu FH sitt þriðja mark og þremur mínútum síðar var einum leikmanni Keflvíkinga vikið af vellinum fyrir grófa árás á leikmann FH. Á 38. mínútu lá boltinn í neti Keflvíkinga í fjórða skiptið. Í seinni hálfleik var þetta leikur kattarins að músinni. FH-ingar skoruðu þrjú mörk á 17 mínútna kafla áður en Keflvíkingar uppgötvuðu að þeir væru með í leiknum. Á 79. mínútu skoraði Óli Jón eina mark Keflvíkinga og þremur mínútum síðar skoruðu FH-ingar sitt áttunda og síðasta mark í leiknum. Lokatölur urðu því 8-1 FH í vil og Íslandmeistaratign þeirra orðin staðreynd.
Eftir ágætisferð norður á Akureyri sjö dögum áður var komið að næsta verkefni. FH-ingar þurftu eitt stig og Keflvíkingar þurftu a.m.k. að innbyrða eitt stig til þess að komast upp fyrir HK. FH-ingar komu ákveðnir til leiks og hófu að keyra upp vinstri kantinn og opna þar svæði. Keflvíkingarnir lokuðu vel á þessi svæði og kom eins konar flöskuháls á leikaðferð FH-inga í upphafi leiksins. Á 13. mínútu fékk FH svo hornspyrnu. Leikmaður FH stóð einn og óvaldaður á markteig og skoraði örugglega. Keflvíkingar tóku miðju og reyndu að byggja upp spil frá vörn þegar varnarmaður sendir á mótherja, sem þáði sendinguna með þökkum og skoraði. FH-ingar komnir með örugga forystu, 2-0, og höfðu ekkert haft fyrir þessum mörkum. Keflvíkingar reyndu að byggja upp spil með því að liggja framar og vinna boltann. Nokkrar sóknir ógnuðu FH-markinu en ekkert að ráði. Um miðjan hálfleikinn fékk Árni að taka aukaspyrnu ca. 25 metra frá markinu. Boltinn skoppaði fyrir framan leikmenn beggja liða og markmaðurinn virtist varla sjá boltann og sló hann út af. Þetta var eina umtalsverða færi Keflvíkinga í fyrri hálfleiknum. Á 27. mínútu fékk FH hornspyrnu og enn á ný var hætta upp við Keflavíkurmarkið. Eitthvað virtist einbeitning leikmanna vera misupplögð og FH-ingar skoruðu þriðja mark sitt án teljandi erfiðleika. Á 30. mínútu kom svo glórulaust brot Arons við miðju. Dómarinn var viss í sinni sök, leikmenn Keflvíkinga því orðnir einum manni færri og 3-0 undir. Á 38. mínútu fengu heimamenn sókn sem varnarmönnum Keflavíkur mistókt að stöðva og sóknarmaður FH setti hann auðveldlega í netið. Seinni hálfleikur var þungur og leikmenn Keflavíkur virtust vilja komast heim. Liðið sýndi ekki tennurnar fyrr en FH skoraði sitt fimmta mark. Á 53. mínútu keyrðu heimamenn upp hægri kantinn, komust að endalínu og gáfu boltann út þar sem einn sóknarmaður var týndur og tröllum gefinn. Auðvelt. Eftir markið komu bittennurnar aðeins í ljós og leikmenn fengu smá skap. Örfáar en snarpar sóknarlotur enduðu þó yfirleitt á traustri varnarlínu FH. Á 67. mínútu fékk miðjumaður FH boltann og keyrði upp allan völlinn og skoraði auðveldlega. Það var eins og leikmenn Keflavíkur hafi boðið hann velkominn í liðið og boðið honum svæði til þess að athafna sig. Þremur mínútum síðar skoraði FH sitt sjöunda mark. Enn á ný urðu mistök í vörn Keflvíkinga og FH-ingar nýttu sér það út í ystu æsar. Það var sem Keflvíkingar hafi ekki áttað sig á þeir væru með á vellinum. Á 79. mínútu kom boltinn inn fyrir varnalínu FH. Varnarmaður FH spyrnti boltanum til markmanns, sem tók hann upp og réttilega dæmd óbein aukaspyrna. Bjössi var snöggur að átta sig á þessu og sendi boltann á Óla sem skoraði eina mark Keflvíkinga. Á 82. mínútu skoruðu FH-ingar sitt áttunda og síðasta mark í leiknum. Niðurlægingin orðin staðreynd, 8-1 tap. FH-ingar urðu Íslandsmeistarar en Keflvíkingar í fallsæti, með 21 mark í mínus.
Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um þennan leik. Keflvíkingarnir voru greinilega ekki tilbúnir í þennan leik. Hverju er það að kenna?? Leikmönnum, þjálfara????? Það sást að hugarfar leikmanna var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Leikmenn fóru úr sínum hlutverkum og einbeitningin var ekki nægjanleg í föstu leikatriðunum. Ekki er hægt að kenna vallaraðstæðum um, bæði lið spiluðu með sama boltann og notuðu sama grasið. Árni var besti leikmaður liðsins og ásamt Ingva var sífelld vinna þeirra á miðsvæðinu ágæt. Aðrir leikmenn léku langt, mjög langt undir getu.
Keflavík 5-4-1
Byrjunarlið:
1 Magnús Þormar (M) (út ‘86)
2 Brynjar Magnússon (út ´75)
3 Jóhannes Bjarnason (út ´45)
4 Ögmundur Erlendsson (F)
5 Þorsteinn Georgsson
6 Arnar Halldórsson (út ´70)
7 Árni Þ. Ármannsson (út ´82)
8 Ingvi Rafn Guðmundsson
9 Einar Ottó Antonsson
10 Aron Smárason
11 Björn Bergmann Vilhjálmsson
Varamenn:
12 Guðmundur Þórðarson (M) (inn ´86)
13 Garðar Karlsson (inn ´70)
14 Högni Þorsteinsson (inn ´75)
15 Fannar B. Gunnólfsson (inn ´82)
16 Ólafur Jón Jónsson (inn ´45)
Þjálfari: Jóhann Emil Elíasson
Leikurinn hófst klukkan 18:55 í stað 18:30 vegna þess að aðstoðardómarar voru ekki mættir og var brugðið á það ráð að hafa einn úr hvoru liði sem aðstoðadómara, með samþykki dómara leiksins. Leikurinn var hin mesta skemmtun, hraður og fjörugur. Á 8. mínútu kom Bjössi Keflvíkingum yfir og á 16. mínútu jöfnuðuð Fylkismenn leikinn og þar við sat. Þvílík spenna er því komin í botnbaráttuna milli Keflavíkur og HK.
Það leit ekki út fyrir að leikurinn færi fram sökum dómaraleysis en það var í höndum Gumma og Davíðs H. að leysa aðstoðardómaranna af. Aðstæður voru ekki góðar, völlurinn frekar háll, suddi og þokulæða. Þegar leikurinn var svo flautaður á var greinilegt að Keflvíkingar ætluðu að taka a.m.k. annað stigið. Eftir hrikalega útreið á móti Íslandsmeisturunum FH voru Keflvíkingar sýnd veiði en ekki gefin. Með hefðbundinni spilamennsku náðu Keflvíkingar völdum á miðjunni og reyndu oft að koma með boltann í gegnum miðja vörn Fylkismanna. Upp úr einni slíkri fengu Keflvíkingar aukaspyrnu. Barst boltinn í miðjan vítateig og var Bjössi nokkuð fljótur að átta sig á stöðunni og setti boltann í netið. Eftir markið var mikið um átök á miðsvæðinu. Fylkismenn keyrðu mikið upp kantinn og freistuðu þess að opna varnarlínu Keflvíkinga. Þeir ógnuðu Keflavíkurmarkinu nokkrum sinnum en Maggi var réttur maður á réttum stað. Á 16. mínútu kom fát á vörn Keflvíkinga eftir snarpa spretti Fylkismanna. Boltinn barst inn í vítateig Keflvíkinga, sem náðu ekki að hreinsa frá, og þaðan á sóknarmann sem stóð einn og óvaldaður og náði skoti á markið. Maggi varði vel en kantmaður Fylkismann fylgdi vel á eftir og setti boltann í markið. Við þetta jafnaðist leikurinn og fengu bæði lið tækifæri til þess að klára leikinn. Einar komst einn á móti markmanni á 20. mínútu en setti boltann framhjá með vinstri fæti. Hálfri mínútu síðar skaut sóknarmaður Fylkis boltanum framhjá markinu eftir að boltinn hafði skoppað framhjá varnarmönnum Keflavíkur. Steini átti svo skot af 25 metra færi sem stefndi í markvinkilinn en góður markvörður Fylkismanna sveif eins og hrafninn sjálfur (heitir Hrafn) og sló boltann yfir markið. Í seinni hálfleik unnu Keflvíkingar vel aftur og sköpuðu sér mikið svæði með og án bolta á miðsvæðinu. Margar sóknir enduðu þó með að markmaður Fylkismanna varði í horn, oft á tíðum á óskiljanlegan hátt. Mikið var þó um að ótímabær skot, óeigingirni upp við markið og mistök í öftustu vörn sem bæði glöddu augu og særðu. Á 80. mínútu skoruðu Fylkismenn eftir þunga sókn en dæmd var rangstaða. Fylkismenn settu svo aðeins meira púst í leikinn síðustu 10 mínúturnar en Keflvíkingar vörðust vel. Uppskera leiksins varð því eitt stig og hagstæð úrslit síðustu leikja HK-manna gefa Keflvíkingum von um að halda sér upp.
Þegar illa gengur er oftast mun léttara að hörfa undan en þessir piltar í 2. flokki hafa tekið á þessari stöðu sinni. Með þessu eina stigi hafa þeir jafna markatölu og HK en lakara markahlutfall. Eins og oft þá er einn leikmaður sem sker sig út úr annars jöfnu liði Keflavíkur, sá leikmaður er Maggi markmaður. Hann tók marga bolta sem komu í teiginn og sýndi loksins hversu megnur hann er. Einar vann vel aftur og hjálpaði miðjumönnum þegar á þurfti. Aðrir leikmenn fá plús fyrir að gefa allt í leikinn, kannski að leikmenn hafi loksins skilið sitt hlutverk innan liðsins. Svo var líka gaman að sjá að ekkert mark kom uppúr föstum leikatriðum andstæðinga, sem er fagnaðerindi fyrir leikmenn og þjálfara.
Næsti leikur er gegn KR, þriðjudaginn 2. september kl. 18:00 á KR-vellinum.
Félag | Leikir | U-J-T | Mörk | Nettó | Stig | |
1 | FH | 12 | 12-0-0 | 51-13 | +38 | 36 |
2 | KR | 12 | 7-1-4 | 38-24 | +14 | 22 |
3 | ÍA | 12 | 7-1-4 | 23-18 | +5 | 22 |
4 | Fylkir | 12 | 5-4-3 | 27-19 | +8 | 19 |
5 | Fram | 12 | 6-0-6 | 20-19 | +1 | 18 |
6 | HK | 12 | 3-1-8 | 19-34 | -15 | 10 |
7 | Keflavík | 12 | 3-1-8 | 20-41 | -21 | 10 |
8 | Þór | 12 | 0-2-10 | 11-41 | -30 | 2 |
Keflavík 3-5-2
Byrjunarlið:
1 Magnús Þormar (M)
2 Arnar Halldórsson
3 Jóhannes Bjarnason
4 Högni Þorsteinsson (út ´83)
5 Þorsteinn Georgsson
6 Árni Þ. Ármannsson
7 Fannar B. Gunnólfsson
8 Ingvi Rafn Guðmundsson
9 Einar Ottó Antonsson
10 Björn Bergmann Vilhjálmsson
11 Ögmundur Erlendsson (F)
Varamenn:
12 Guðmundur Þórðarson (M)
13 Denis Grbic
14 Davíð Hallgrímsson
15 Garðar Karlsson (inn ´83)
Þjálfari: Jóhann Emil Elíasson
Jóhann Emil Elíasson þjálfari skrifar