Af leyfiskerfi KSÍ
Eins og flestir vita þurfa félögin sem leika í efstu deild að uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt leyfiskerfi KSÍ. Leyfiskerfið á að gera félögum kleift að bæta skipulag sitt samkvæmt viðurkenndum lágmarksviðmiðum, gera fjármál íþróttarinnar sýnilegri sem ætti að leiða til aukinnar tiltrúar fjárfesta og meiri fjárfestinga utanaðkomandi aðila í íþróttinni, og bæta öryggi og ánægju áhorfenda á leið til leiks, meðan á leik stendur og að honum loknum. Upplýsingar frá félögunum hafa verið að týnast inn en að þessu sinni vorum við Keflvíkingar snemma á ferðinni og vorum þriðja félagið til að skila inn tilsettum gögnum en það gerðist fyrir áramót. Áður höfðu Valur og KA skilað. Gögnin sem búið er að skila taka til þátta eins og menntunar þjálfara, uppeldisstefnu félags í málefnum ungra leikmanna, lagalegum þáttum og mannvirkjaþáttum. Félögin hafa frest til 15. janúar til að skila þessum gögnum en lokaskiladagur fjárhagslegra gagna er síðan 20. febrúar.