Fréttir

Knattspyrna | 9. maí 2009

Af starfi Sportmanna

Aðalfundur Sportmanna var haldinn síðastliðinn mánudag.  Ágæt mæting var á fundinn og fjörugar umræður.  Kristján þjálfari og Einar aðstoðarþjálfari mættu og fóru yfir komandi sumar.  Á fundinum var kosin ný stjórn og er hún nú þegar tekin til starfa.  Nýir í stjórn eru Óli Þór Magnússon, Ragnar Steinarsson, Sigmar Scheving og Steinbjörn Logason.  Karl Finnbogason var í fyrri stjórn og heldur áfram.  Gísli Eyjólfsson, Magnús Torfason, Sigurður Björgvinsson og Þorsteinn Ólafsson hætta í stjórn félagsins.  Þeir komu allir að stofnun félagsins og hafa verið í stjórn frá byrjun eða í fjögur ár.  Þeim félögum eru þökkuð góð störf fyrir félagið og vonast ný stjórn til að geta leitað til þeirra ef á þarf að halda og að þeir verði virkir í félaginu áfram.

Starfsemi Sportmanna mun verða með svipuðu formi og áður en gjaldgengir í félagið eru fyrrverandi leikmenn Keflavíkur (sem hafa spilað opinberan leik) og fyrrverandi stjórnarmenn.  Fyrsti leikur er núna á mánudaginn gegn FH.  Fyrir leik mun Kristján þjálfari fara yfir leikinn og eins munu aðilar frá Ölgerðinni (styrktaraðila Pepsi deildarinnar) koma og fara yfir samstarfið.  Keflvíkingurinn Kristján Guðlaugsson mun verða þar fremstur í flokki.  Leikurinn byrjar kl. 19:15 en húsið (íþróttavallarhúsið við Hringbraut) opnar kl. 18:00. 

Það er von okkar að sem flestir fyrrverandi leikmenn og stjórnarmenn sjái sér fært að vera í félaginu og styðja þannig leikmenn liðsins og taka þátt í umræðum með gömlum félögum.  Félagsgjaldið er kr. 11.000 og er inn í því miði á alla heimaleiki liðsins í Pepsi deildinni (gildir ekki á bikar og Evrópuleiki).  Þeir sem eru með ársmiða eða sjá sér ekki fært að kaupa ársmiðann en vilja vera í félaginu geta greitt kr. 3.000.  Fyrir leik og í hálfleik er svo boðið upp á kaffi og með því.  Hægt er að borga kr. 5.000 fyrir allt tímabilið eða greiða kr. 500 fyrir hvert skipti.  Toggi (formaður K-klúbbsins) mun taka við þeim greiðslum.

Hægt er að greiða fyrir félagsgjaldið (kr. 11.000 eða kr. 3.000) með því að leggja inn á reikning: (1109-05-410176 kt. 090570-4719) og senda kvittun á karlf@mitt.is.  Eins er hægt að greiða á staðnum á mánudaginn en kortin verða afhent þá.

Nánari upplýsingar veita Ragnar Steinarsson í sími 861-5665 og Sigmar Scheving í sími846-8051 eða E-mail: sigmar@tm.is.