Fréttir

Knattspyrna | 10. júní 2010

Af ungum markvörðum

Það hefur varla farið framhjá neinum að töluverð umræða hefur orðið um markvarðastöðuna hjá okkur Keflvíkingum, eins og reyndar fleiri félögum.  Eftir að Ómar Jóhannsson meiddist gegn KR hefur Árni Freyr Ásgeirsson tekið stöðu hans í markinu og Bergsteinn Magnússon verið á bekknum.  Það er því óhætt að segja að þessa dagana sé Keflavík með eitt yngsta markvarðapar sem sögur fara af, ekki síst þegar miðað er við lið sem er á toppnum í efstu deild.

Það er óhætt að segja að þeir Árni Freyr og Bergsteinn séu að feta fótspor margra öflugra markvarða sem komið hafa upp hjá Keflavík og báðir eru þeir stórefnilegir.  Árni Freyr er fæddur 10. mars 1992 og varð því 18 ára í vor.  Hann var fyrst á bekknum hjá meistaraflokki árið 2007, þá 15 ára gamall.  Árni hefur leikið með U-17 og U-18 ára landsliðum Íslands og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér.  Tækifærið með meistaraflokki kom þó heldur snögglega og fyrr en gert var ráð fyrir enda óhætt að segja að piltinum hafi verið kastað út í djúpu laugina.

Bergsteinn er ekki síður efnilegur en hann er fæddur 3. mars 1994 og er því nýorðinn 16 ára.  Bergsteinn er enn í 3. flokki en hefur einnig leikið með 2. flokki í sumar þegar Árni Freyr hefur verið upptekinn með meistaraflokknum.  Bergsteinn var lykilmaður í hinum geysisterka 3. flokki Keflavíkur síðastliðið sumar en flokkurinn vann þá nánast öll mót sem hann kom nálægt.  Hann hefur tekið þátt í úrtaksæfingum U-17 ára landsliðins í vetur.  Þess má geta að Bergsteinn kemur úr Garðinum og bætist þannig í fríðan hóp knattspyrnumanna þaðan sem leikið með Keflavík.


Bergsteinn og Árni Freyr á góðri stund.
(Mynd: Jón Örvar)