Fréttir

Áfram í bikarnum
Knattspyrna | 7. júlí 2014

Áfram í bikarnum

Keflavík tryggði sér sæti í undanúrslitum Borgunarbikarsins með góðum sigri á Fram í 8 liða úrslitum keppninnar.  Leikið var á Laugardalsvelli og lokatölur urðu 3-1.  Hörður Sveinsson kom okkar liði yfir um miðjan fyrri hálfleikinn og Sindri Snær Magnússon og Magnús Þórir Matthíasson bættu við mörkum í seinni hálfleiknum.  Björgólfur Takefusa minnkaði muninn fyrir Framara í blálokin.

Keflavík er því komið í undanúrslit bikarsins en þau fara fram 30. og 31. júlí.  Dregið verður þriðjudaginn 8. júlí.

Næsti leikur er útileikur gegn Víkingum í Pepsi-deildinni en hann verður á Víkingsvellinum mánudaginn 14. júlí kl. 19:15.

Leikskýrsla á KSÍ.is

  • Þetta var 12. leikur Keflavíkur og Fram í bikarkeppninni.  Keflavík hefur nú unnið fimm leiki en Fram sjö.  Markatalan er 16-18 fyrir Fram.
     
  • Hörður Sveinsson gerði sjötta mark sitt í sumar og annað mark sitt í bikarkeppni fyrir Keflavík.  Það fyrra kom í úrslitaleik gegn KA árið 2004 eða fyrir tíu árum.  Magnús Þórir Matthíasson gerði sitt annað mark í sumar og fjórða mark sitt í níu bikarleikjum með Keflavík.  Sindri Snær Magnússon skoraði þriðja mark sitt í sumar í sínum fyrsta bikarleik með Keflavík.
     
  • Keflavík komst í undanúrslit bikarkeppninnar í fyrsta sinn síðan árið 2009.  Þá tapaði liðið fyrir Breiðabliki í undanúrslitunum, 2-3.

Myndir: Jón Örvar Arason