Fréttir

Knattspyrna | 29. apríl 2011

Áfram Keflavík!

Nú er 100. Íslandsmótið að hefjast og verður eflaust mikið um dýrðir og hart barist á öllum völlum.  Við teflum fram breyttu liði frá því í fyrra eins og gengur og gerist en erum samt með okkar lykilmenn í mörgum stöðum. 

Okkar ungu og mjög svo efnilegu leikmenn munu fá fullt af tækifærum í sumar og það er alveg klárt mál að þeir munu standa sig með prýði.  Mín tilfinning er allavega sú að við erum með flotta blöndu af okkar bestu og reyndustu leikmönnum sem eiga eftir að láta mikið að sér kveða í sumar og munu eflaust leiða vagninn áfram, svo erum við með unga og kraftmikla stráka sem mæta dýrvitlausir inná völlinn og eru staðráðnir í að standa sig. 

Það er svo sem engin pressa á liðinu annað en að allir geri sitt besta í hverjum leik.  Það sem ég ætla allavega að gera í sumar er að hafa gaman af því að mæta á völlinn og styðja liðið mitt, vera jákvæð og sýna bæði ungum og gömlum leikmönnum stuðning á vellinum.  

Við eigum alveg stórskemmtilegt lið með góða liðstjórn í brúnni.  Mótið snýst um að safna sem flestum stigum og skora fleiri mörk en andstæðingurinn og það munum við svo sannarlega gera.  Eitt er allavega ljóst að við munum vinna leiki, tapa leikjum og gera jafntefli í einhverjum leikjum og langar mig til að hvetja alla stuðningsmenn að halda jákvæðninni og góðum stuðning sem mest á lofti, höfum bara gaman af þessu.  Það er allt of mikil neikvæðni í þjóðfélaginu og ég vil bara ekki  heyra neikvæðni í áhorfendastúkunni á Nettóvellinum né á útileikjum Keflavíkur í sumar!!  Eina verkefni okkar stuðningsmanna er að hvetja liðið okkar, látum í okkur heyra og verum liðinu og félaginu okkar til sóma hvert sem við förum.  Þeir ungu leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í efstu deild þurfa svo sannarlega á góðum stuðning að halda.  Eina krafan sem ég geri á liðið mitt er að allir leikmenn mæti tilbúnir í hvern leik og berjist allan leikinn.  Fjölmennum á okkar glæsilega Nettóvöll í allt sumar og skemmtum okkur saman.  Fótbolti er skemmtun.

ÁFRAM KEFLAVÍK !!
Hjördís Baldursdóttir