Áfram samstarf við Hitaveituna
Knattspyrnudeild Keflavíkur og fyrirtæki Hitaveitu Suðurnesja framlengdu í vikunni samstarfssamning sinn. Í samningnum felst að fyrirtækin, HS Veitur og HS Orka styðja áfram við bakið á knattspyrnufólki í Keflavík. Þá mun meistaraflokkur karla bera merki HS Veitna á búningi sínum eins og síðasta sumar. Þetta er mjög ánægjulegt fyrir Knattspyrnudeildina enda á ferðinni öflugt fyrirtæki sem hefur lengi stutt starfsemi deildarinnar á ýmsa vegu. Það voru Júlíus Jónssons forstjóri Hitaveitunnar og Þorsteinn Magnússon formaður Knattspyrnudeildar sem undirrituðu samninginn.
HS Orka
Fyrirtækið sér um framleiðsluna. Það á og rekur orkuverin í Svartsengi og á Reykjanesi, dælustöð og miðlunargeyma inn á Fitjum og aðveituæð frá Svartsengi inn á Fitjar. Landið sem fyrirtækið vinnur jarðvarma úr er í eigu opinberra aðila, eða með öðrum orðum, almennings. Fyrirtækið greiðir árlega eigendum jarðanna auðlindagjald fyrir afnot af auðlindunum
HS Veitur
Fyrirtækið sér um dreifingu afurða orkuveranna til viðskiptavina. Það á og rekur dreifikerfi vatns- og rafmagns á dreifisvæðum fyrirtækisins. Dreifisvæðið er Reykjanes, Hafnarfjörður, Álftanes og hluti Garðabæjar, Árborg og Vestmannaeyjar. Á Reykjanesi og Vestmannaeyjum er dreifing á heitu og köldu vatni og rafmagni. Á Hafnarfjarðarsvæðinu og í Árborg er dreifing á rafmagni.
Júlíus og Þorsteinn við undirritun samningsins á síðasta ári.