Fréttir

Knattspyrna | 29. júní 2010

Aftur á toppinn

Keflvíkingar mættu Valsmönnum á Vodafonevellinum í 9. umferð Pepsi-deildarinnar á sunnudag.  Bæði lið gátu komið sér í toppsætið með sigri.  Keflavík sigraði í góðum leik með tveimur fallegum mörkum í seinni hálfleik.  Við verðum að minnast á stuðningsmenn Keflavíkur sem voru frábærir allan leikinn.  Leikmenn höfðu það á tilfinningunni að þeir væru að spila á heimavelli þegar liðin gengu til leiks, svo mikill var stuðningurinn við liðið og þannig var það allan leikinn.  Ekki skemmdi fyrir að veðrið var flott og allar aðstæður til að spila flottan bolta.

Keflavík byrjaði leikinn mun betur og sótti stíft að marki Vals.  Gummi Steinars átti aukaspyrnu rétt framhjá og svo komu skot frá Magnúsi Sverri, Paul og aftur frá Gumma St.  Magnús Sverrir komst í dauðafæri eftir fimmtán mínútur og átti svo skot í stöng á 34. mínútu.  Valsmenn ógnuðu aldrei að ráði og Ómar Jóhannsson sá um fyrirgjafir þeirra fyrir markið.  Markalaust í hálfleik og Keflvíkingar ekki par hressir með stöðuna.

Seinni hálfleikur byrjaði með látum.  Magnús Sverrir með skot yfir og fljótlega eftir það var svo ísinn loksins brotinn.  Á 52. mínútu fékk Guðjón Árni boltann og geystist upp völlinn frá eigin vallarhelming (ein stutt á Magnús Þóri sem gaf til baka) og í gegnum vörn Valsmanna, sólaði þá nokkra og setti boltann í netið.  Snilldarmark hjá Guðjóni Árna og Keflavík komið með forystu.  Í þessari sókn meiddist Magnús Þórir illa og Brynjar Örn kom inn á í hans stað.  Valsmenn reyndu að klóra í bakkann en varð ekkert ágegnt vegna góðri vörn okkar manna.  Það var svo Brynjar Örn sem kláraði Valsmennn með stórglæsilegu marki á 84. mínútu; skot fyrir utan vítateig sem söng í netinu.  Keflavík var nær að bæta við marki en Valur að minnka muninn.  Sigurður Gunnar fékk svo lokafæri leiksins þegar skalli hans fór rétt yfir.

Keflavík er aftur komið á topp deildarinnar eftir þennan góða sigur á Val.  Liðið spilaði vel í leiknum og var betra á öllum sviðum.  Enn eru meiðsli að hrjá okkur og þeir Haukur Ingi, Jóhann Birnir, Hörður og Andri Steinn voru frá gegn Val og svo bættist Magnús Þórir á listann.

Næsti leikur okkar er gegn FH á nýjum og glæsilegum Sparisjóðsvellinum í Keflavík sunnudaginn 4. júlí kl. 19:15.

  • Keflavík og Valur hafa nú leikið 86 leiki í efstu deild.  Keflavík hefur nú unnið 28 leiki, Valsmenn 32 en 26 leikjum hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 128-131 fyrir Val.
     
  • Keflavík hefur ekki tapað á útivelli gegn Valsmönnum í síðustu níu leikjum.  Sigurinn nú kom eftir sex jafntefli liðanna í röð að Hlíðarenda en síðasti sigur Vals þar gegn Keflavík kom árið 1997.
       
  • Guðjón Árni skoraði sitt fyrsta mark í sumar og níunda fyrir Keflavík í efstu deild.  Segja má að Guðjón sé næst markahæsti varnarmaður Keflavíkur í efstu deild, þ.e. ef miðað er við þá sem hafa leikið að mestu eða eingöngu í vörninni á sínum ferli.  Einar Gunnarsson skoraði á sínum tíma 11 mörk í efstu deild á árunum 1966-1979.  Á hinum endanum er svo Kristinn nokkur Guðbrandsson sem lék 115 leiki fyrir Keflavík í efstu deild án þess að skora og er sá útivallarleikmaður sem hefur leikið flesta leiki án þess að gera mark.
        
  • Brynjar Örn skoraði sitt annað mark í sumar og er markahæsti leikmaður liðsins ásamt Magnúsi Sverri.  Brynjar hefur nú skorað tvö mörk í fjórum leikjum en áður hafði hann skorað eitt mark í 55 leikjum með Keflavík í deild, bikar og Evrópu.  Það skal þó tekið fram að Brynjar hefur oft verið að spila framar á vellinum á þessu tímabili eftir að hafa yfirleitt leikið í vörninni.
      
  • Sigurbergur Elísson var í leikmannahópi Keflavíkur í fyrsta skipti í sumar.  Hann hefur glímt við erfið meiðsli og náði ekkert að leika á siðasta tímabili en er vonandi að koma sterkur til baka.  Sigurður Gunnar Sævarsson kom inn á sem varamaður í leiknum og lék sinn fyrsta leik í sumar.
        

Fótbolti.net
,,Það er frábær tilfinning að koma og spila á móti jafn sterku liði Valsliðið er. Þeir eru búnir að vera á mikilli siglingu á meðan við höfum pínulítið hökt og átt erfiða viku. Þeir áttu líka reyndar erfiða leiki í vikunni. Ég er fyrst og fremst ofsalega kátur með spilamennskuna í dag í ljósi þessa," sagði Willum Þór Þórsson þjálfari Keflavíkur eftir 0-2 sigur á Val í dag.

Guðjón Árni Antoníusson varnarmaður Keflavíkur skoraði frábært mark fyrir liðið í leiknum.
,,Ég hef reyndar séð hann gera þetta áður. Hann er ofsalega kröftugur og þegar hann setur í gírinn er erfitt að eiga við hann. Það verður að hrósa honum fyrir þetta framtak. Að keyra upp allan völlinn og nánast með boltann inn í markið," sagði Willum.

Willum hefur verið í lituðu íþróttavesti í leikjum Keflavíkur í sumar en í fyrsta sinn var hann ekki í slíku í kvöld.
,,Ég vona að ég fái að vera bara áfram svona, og sleppa vestinu. Það var enginn sem minntist á það og þá var ég ekkert að fara í það."

Fréttablaðið / Vísir
Keflvíkingar sitja nú á toppi Pepsi-deildarinnar eftir sannfærandi 0-2 sigur gegn Val en liðin áttust við á Vodafone-vellinum fyrr í dag. Willum Þór Þórsson, fyrrum þjálfari Vals og núverandi þjálfari Keflvíkinga dansaði allan leikinn á Hliðarlínunni með tilþrifum og hirti öll stigin á sínum gömlu slóðum.
Keflvíkingar skoruðu fyrsta mark leiksins fljótlega í síðari hálfleik en þá átti Guðjón Árni Antoníusson frábæran sprett upp völlinn, spólaði sig í gegnum vörn heimamanna og lagði boltann snyrtilega í stöngina og inn framhjá Kjartani í markinu.
Varamaðurinn Brynjar Örn Guðmundsson innsiglaði svo sigur Keflvíkinga með glæsilegu skoti fyrir utan teig sem söng í netinu. Glæsilegt mark og þannig lauk leiknum en Willum Þór gat brosað með þrjú stig í hendi eftir heimsókn sína á Hlíðarenda og frábæra spilamennsku Keflvíkinga sem sitja einir á toppi deildarinnar eftir leiki dagsins.
Ómar 6, Guðjón 7, Alen 6, Bjarni 7, Haraldur 7, Einar Orri 6, Paul 6 (Sigurður Gunnar -),  Hólmar Örn 6, Magnús Þórir 6 (Brynjar Örn -), Magnús Sverrir 8, Guðmundur 6 (Ómar Karl -).

Morgunblaðið / Mbl.is
Keflvíkingar tylltu sér á ný í toppsætið í Pepsí-deild karla í knattspyrnu í gær þar sem þeir sátu um tíma fyrr í sumar. Keflvíkingar bundu enda á fjögurra leikja hrinu án sigurs í deild og bikar, þar sem þeir gerðu tvö jafntefli og töpuðu tveimur leikjum. Sigurinn hlýtur að hafa verið sætur fyrir Willum Þór Þórsson sem hætti hjá Val í fyrra og ekki að eigin frumkvæði.

Keflvíkingar unnu sannfærandi 2:0 sigur á Val á Vodafone-vellinum í gær en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn. Eftir níu umferðir hafa Keflvíkingar aðeins tapað einum leik en slíkt þótti afskaplega gott þegar gamla 18 leikja Íslandsmótið var hálfnað. Keflvíkingar misstu aðeins dampinn eins og áður segir en eru engu að síður aðeins með eitt tap á bakinu. Varnarleikur liðsins var afskaplega traustvekjandi í gær og Valsmenn fengu í raun aðeins eitt dauðafæri í leiknum og þá var Ómar vandanum vaxinn í markinu.
M: Ómar, Guðjón, Alen, Bjarni Hólm, Haraldur, Hólmar Örn, Magnús Sverrir.
 
 
Pepsi-deild karla, Vodafonevöllurinn, 27. júní 2010
Valur 0
Keflavík 2
(Guðjón Árni Antoníusson 52., Brynjar Örn Guðmundsson 84.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson, Paul McShane (Sigurður Gunnar Sævarsson 86.), Hólmar Örn Rúnarsson, Magnús Þórir Matthíasson (Brynjar Örn Guðmundsson 52.), Guðmundur Steinarsson (Ómar Karl Sigurðsson 68.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Magnús Þór Magnússon, Sigurbergur Elísson, Bojan Stefán Ljubicic.
Gul spjöld: Einar Orri Einarsson (56.), Paul McShane (59.).

Dómari: Jóhannes Valgeirsson.
Aðstoðardómarar: Einar Sigurðsson og Eðvarð Eðvarðsson.
Varadómari: Gunnar Sverrir Gunnarsson.
Eftirlitsdómari: Ólafur Ragnarsson.
Áhorfendur: 827, stuðningsmenn Keflavíkur frábærir!


Guðjón með Brassasprett og skorar fyrra markið.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)