Aftur af stað
Kæru stuðningsmenn, nú er boltinn farinn að rúlla hjá okkur Keflvíkingum aftur eftir smá frí. Deildin hefur verið frekar undarleg í sumar og einkennst af fríum og svo snörpum leikjaskorpum inná milli þar sem við höfum oft þurft að spila 3 leiki á einni viku.
Næsti leikur verður á mánudaginn á móti Grindavík hér heima og það mikilvægur leikur fyrir okkur eins og allir aðrir leikir. Það er algjör skyldumæting fyrir alla Suðurnesjamenn að mæta á þann leik. Við erum með 17 stig í 7. sæti núna og baráttan í liðinu er þannig að við ætlum að berjast fyrir hverju stigi. Við viljum fara ofar í töfluna. Við vorum ánægð með liðið okkar í síðasta leik eftir langt frí þó að við urðum fyrir áfalli snemma í leiknum með því að missa mann útaf með rautt. Leikmenn sýndu það að þeir ætluðu að selja sig dýrt og voru FH-ingum erfiðir. Hefði verið sanngjarnt fyrir okkur að fá allavega eitt stig út úr þeim leik og vorum við ansi nálægt því. En mótið er langt frá því að vera búið og munum við halda áfram og reyna að taka eins mörg stig og við getum og koma okkur ofar í deildinni.
Við eigum öll að vera dugleg að tala vel um liðið okkar og hefja það upp. Við erum í góðu uppbyggingarstarfi sem mun halda áfram næstu ár. Við viljium skora á fjölmiðlana hér í bæjarfélaginu að vera með jákvæðar umfjallanir um liðin okkar í Keflavík og önnur lið í bæjarfélaginu í hvaða íþrótt sem er. Árferðið er nógu erfitt og neikvæðnin í þjóðfélaginu að við eigum að gera íþróttirnar að einhverju jákvæðu og vera jákvæð í umfjöllun.
Að mínu mati höfum við verið á fínu róli í sumar og virkilega ánægjulegt að fá að sjá ungu strákana spreyta sig og hafa þeir staðið sig með prýði og eru aldeilis búnir að stimpla sig vel inní liðið. Ég hlakka til að fá að sjá meira frá þeim og öðrum ungum og efnilegum leikmönnum sem við svo sannarlega eigum. Framtíðin er björt hjá okkur og þess má einnig geta að nú um þessar mundir áttum við tvo unga leikmenn, þá Elías Má Ómarsson og Samúel Kára Friðjónsson sem voru að spila með U-17 landsliðinu á Norðurlandamóti og stóðu sig einstaklega vel. Ekki er svo hægt að gleyma „gömlu“ köllunum okkar en þeir hafa virkilega verið að standa sig vel og geta verið stoltir af sér og þeirri reynslu sem þeir eru að miðla frá sér. Hún er alveg ómetanleg. Þeir hafa verið okkar lykilmenn í sumar. Okkar trú er sú er við eigum að geta barist um 4. sætið en auðvitað þurfa ýmsir hlutir að falla með okkur líka. Við þurfum öll að standa saman og vera jákvæð innan vallar sem utan því að við getum farið langt á baráttunni, jákvæðninni og öflugum stuðningi. Erum við ekki sammála um að við tökum núna þessa 9 leiki sem við eigum eftir að spila og þjöppum okkur vel saman innan vallar sem utan og berjumst? Berjumst hverja einustu mínútu í hverjum leik og látum liðið finna að við stöndum með þeim og höfum fulla trú okkar leikmönnum. Við erum með flottasta liðið og gott fólk í brúnni í stóru Keflavíkurfjölskyldunni. Stöndum saman!
Þannig að nú er bara að fjölmenna á alla leikina og mætum á mánudaginn og tökum 3 stig.
Baráttukveðjur á völlinn
F.h. Knattspyrnudeildarinnar
Hjördís Baldursdóttir