Aftur tap á heimavelli
Þrátt fyrir góðan leik okkar manna gegn KR þar sem við vorum mun betri og fengum færi til að skora, klúðrum tveim vítaspyrnum, þá töpum við leiknum 1-2. Guðmundur Steinarsson kom okkur yfir í lok fyrri hálfleiks með marki úr vítaspyrnu. Í byrjun seinni hálfleiks skora KR-ingar tvö mörk með stuttu millibili. Keflavík fær svo tvær vítaspyrnur og láta verja frá sér í bæði skiptin. Lélegur dómari leiksins, Eyjólfur M. Kristinsson, virtist ekki hafa hugrekki til að gefa markmanni KR-inga rautt spjald í fyrstu vítaspyrnunni og gaf honum gult spjald. Í þriðju vítaspyrnunni brýtur markvörðurinn illa á Hauki Inga og þá fór ekkert spald á loft. Ótrúlega léleg dómgæsla allan leikinn og ekki í fyrsta skipti í sumar sem hann hreinlega höndlar ekki verkefnið sem hann er settur í.
Næsti leikur er á laugardag gegn Fjölni á útivelli.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Haraldur Freyr Guðmundsson, Nicolai Jörgensen (Haukur Ingi Guðnason 72.), Magnús Sverrir Þorsteinsson, Jón Gunnar Eysteinsson, Einar Orri Einarsson, Símun Samúelsen, Hólmar Örn Rúnarsson (Sverrir Þór Sverrisson 88.), Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Ómar Jóhannsson, Tómas Karl Kjartansson, Bessi Víðisson, Magnús Þórir Matthíasson, Magnús Þór Magnússon.
Kristján þjálfari var í viðtali á fótbolti.net og birtum við það hér með leyfi:
Kristján Guðmundsson var eiginlega í losti eftir að hafa horft uppá menn sína tapa fyrir KR í dag. Þrátt fyrir að hafa verið betri meirihluta leiksins og fengið þrjár vítaspyrnur.
,,Þetta er bara hálfgert lost. Við vorum að spila vel og fengum fullt af færum. Ógnum marki þeirra mjög vel, fínn varnarleikur en að við skulum ekki vinna þennan leik er bara með ólíkindum. Það er ótrúlegt hvað þetta ætlar að vera erfitt fyrir okkur. Það er bara ekkert að falla með okkur í sumar. " sagði Kristján í samtali við Fótbolta.net eftir leikinn.
Þrjár vítapyrnur í dag og aðeins ein sem skoruð er úr.
,,Ég er að segja það. Þetta er með ólíkindum að við skulum ekki gera betur. Það er ekki bara vítin. Við erum að fá færi í fyrri hálfleik, löngu áður en við skorum fyrsta markið. Líka í seinni hálfleik eftir að við lendum 1 - 2 undir. Þannig að fínn leikur en bara hreint með ólikindum að við skulum ekki vinna hann og hreinlega bara vinna hann stórt.
Við vorum kannski ekki nógu beittir í því að spila bara einfalt í upphafi seinni hálfleiks þegar við sáum hversu framarlega þeir byrjuðu seinni hálfleikinn. Þá áttum við bara að setja boltann yfir miðjuna og upp á framherjana til þess að fá þá aðeins aftar. En við vorum kannski aðeins of mikið í stutta spilinu og þá var okkur refsað. Ég vil líka meina að annað markið sé ólöglegt þar sem við erum blockeraðir út. "
Að annað markið sé ólöglegt?
,,Já það vil ég meina. Síðan átti markmaðurinn þeirra að vera rekinn útaf. Hann á ekki að fá tækifærin á að verja þessar vítaspyrnur."
Þannig að þú ert ósáttur við dómarann.
,,Ég er ósáttur við þessar ákvarðanir"
Það hefur ekki gengið nógu vel hjá ykkur uppá síðkastið, fjórir leikir í röð án sigurs. Veldur það ekki áhyggjum?
,,Það er ekkert endilega áhyggjuefni á meðan við spilum eins og við spiluðum í dag. Þetta er svo mikil óheppni, það tekur því varla að lýsa því. Þú sérð það bara í þessum leik. Ja bara hefðum við skorað úr þessum vítaspyrnum. Eins og ég segi markmaðurinn á ekkert að vera í markinu til þess að verja þetta. Það átti löngu vera búið að reka hann útaf. Þannig að það er ekki neitt að falla með okkur og þannig er það búið að vera alltof oft í sumar. En leikurinn var fínn, við erum sáttir við leikinn en þetta eru ótrúleg úrslit, ótrúleg. " sagði Kristján að lokum við Fótbolta.net.