Ágústa með sex mörk í öruggum sigri
Miklar andstæður voru mættar til leiks í gærkveldi þegar lið Keflavíkur sótti Bessastaði heim í 1.deild kvenna. Annars vegar lið heimamanna sem ekki var mikill bolti í og hins vegar vel spilandi lið Keflavíkur. Ekki er hægt að draga of margar ályktanir af leik Keflavíkurliðins í þessum leik, mótstaðan var alltof lítil til þess. En liðið er til alls líklegt í úrslitakeppninni sem hefst 21.águst. Til gamans má geta þess að Keflavík átti 66 skot á mark Bessastaða, 44 þeirra á rammann. Boltinn var látinn ganga vel á milli leikmanna og ágæt hreyfing án bolta, þó alltaf megi gera betur þar. Gaman er að geta þess að í marki Keflavíkur stóð ungur leikmaður úr 3. flokki, Anna Jóhannsdóttir. Anna er systir Ómars Jóhannssonar markvarðar Keflavíkurliðsins í fyrra. Ekki reyndi mikið á Önnu og var hún stærstan hluta leiksins ein á vallarhelmingi Keflavíkurliðsins. Einnig hóf leik Helena Þórólfsdóttir úr 3.flokki og skoraði tvö góð mörk. Þriðji leikmaður úr 3. flokki sem kom við sögu í leik þessum var Eva Kristjánsdóttir.Mörk Keflavíkurliðsins skoruðu Ágústa Jóna Heiðdal 6, Hrefna Magnea Guðmundsdóttir 4, Björg Ásta Þórðardóttir og Helena Þórólfsdóttir tvö mörk hvor og Inga Lára Jónsdóttir, Thelma Þorvaldsdóttir og Lilja Íris Gunnarsdóttir settu eitt mark hver.