Áhorfendum fjölgaði um 20%
Áhorfendum í Keflavík fjölgaði um 20% frá árinu 2004 þegar 7.474 áhorfendur mættu á völlinn eða að meðaltali 830 manns. Fyrir tímabilið í vor settum við fram spá um fjölgun áhorfenda og vorum mjög bjartsýnir enda stemmningin góð í bænum. Spáin gerði ráð fyrir 35% aukningu og var vel í lagt. Niðurstaðan er 20% aukning og finnst okkur það glæsilegur árangur. Áhorfendur voru því alls 8.082 eða 989 að meðaltali og vantaði því aðeins 11 áhorfendur til að ná 1.000 manns að meðaltali. Áhorfendur í Keflavík voru valdir bestu áhorfendurnir í umferðum 1-6 og fékk unglingastarfið 100.000 kr. í verðlaun. Stemmningin á pöllunum var oftast mjög góð en datt nokkuð niður á milli leikja og ætlum við að bæta þann leka fyrir næsta sumar.
Fjölgun áhorfenda á sér ýmsar skýringar, góð stemmning fyrir liðinu og væntingar um góðan árangur. Stofnun stuðningshópa eins og Sportmanna og Fjölskylduklúbbsins gerði umgjörð leikjanna skemmtilegri. Sportmenn mættu fyrir hvern heimaleik og fengu sér framsögumann sem fór yfir leikinn, kaffi og meðlæti. Gestir frá öðrum liðum mættu, eins og t.d. Axel Scuhter aðstoðarþjálfari Mainz 05. Þá buðu þeir „gömlum“ leikmönnum gestaliða í kaffi og kökur ásamt léttu spjalli. Fjölskylduklúbburinn fitjaði upp á fjölmörgum nýjungum sem mæltust vel fyrir og margar fjölskyldur sameinuðust á vellinum. Við höfðum það sérstaklega að markmiði að fjölga konum á leikjum liðsins og það tókst með líflegu starfi fjölskylduklúbbsins. K-klúbburinn stóð fyrir sínu og dyggustu félagsmenn hans mættu fyrir hvern leik og voru áberandi eins og áður. Við viljum þakka þeim aðilum sem héldu um starf þessara klúbba fyrir ómetanlegt framlag til þeirrar umgjarðar sem við erum að byggja upp þrep fyrir þrep á hverju ári. Knattpyrnudeild Keflavíkur, leikmenn og þjálfarar þakka fyrir sig. ási