Fréttir

Knattspyrna | 28. júní 2007

Alvörutoppbarátta eftir góðan sigur

Keflavík er nú aðeins tveimur stigum á eftir FH á toppi Landsbankadeildarinnar.  Þetta er staðan eftir góðan sigur á Fylki á Keflavíkurvelli í gær.  Leikurinn var ágætlega leikinn og lengstum var baráttan í fyrirrúmi.  Okkar menn voru heldur sterkari og sköpuðu sér fleiri færi.  Að lokum var það aðeins eitt mark sem skildi liðin að en það kom eftir klukkutíma leik.  Eftir pressu að marki gestanna hreinsuðu þeir út úr teignum.  Þar tók Jónas við boltanum og lyfti honum laglega yfir vörnina á Símun sem skoraði af öryggi.  Laglegt mark og fjórða mark Færeyingsins fljúgandi í deildinni í sumar.  Undir lokin sóttu Fylkismenn og freistuðu þess að jafna án þess að skapa sér opin færi.  Undir lok leiksins kom Högni Helgason inn á sem varamaður og var þetta fyrsti leikur þessa unga Austfirðings fyrir Keflavík.  Eftir leikinn er Keflavík í 2. sæti Landsbankadeildarinn eins og áður sagði, nú með 17 stig.  Fylkismenn eru í 4.-5. sæti með 11 stig.  Næsti leikur okkar er útileikur gegn ÍA miðvikudaginn 4. júlí

Morgunblaðið
Keflvíkingar, sem oft hafa náð undirtökum í heimaleikjum sínum með öflugri byrjun, mættu í gær sterkri mótspyrnu en tókst þó að vinna sig inní leikinn, sérstaklega gekk vel að nota völlinn því kantmenn héldu sig rétt við hliðarlínuna lengst af. Vörnin var geysisterk með Guðmund Viðar Mete og Guðjón Árna Antoníusson besta. Á miðjunni voru Jónas Guðni og Baldur oftast ráðandi en sóknarleikurinn var mestan part ekki í lagi. Það átti að reyna að finna veiku hlekkina og láta Símun sína snilli sína en það gekk ekki sem skyldi.
M: Ómar, Guðjón, Guðmundur Mete, Branko, Marco, Baldur, Jónas, Símun.

Fréttablaðið
Keflavík gengur vel að halda pressunni á Íslandsmeisturum FH en í gær vann liðið góðan heimasigur á Fylki, 1-0. Bæði lið börðust gríðarlega mikið í leiknum sem var harður en samt ágætlega leikinn. Símun Samuelsen skoraði sigurmark Keflvíkinga.

„Við vorum bara ekki nógu góðir og gáfum þeim ódýrt mark,“ sagði Valur Fannar Gíslason, leikmaður Fylkis. „Við gáfum þeim ekki mikið fyrir utan markið en sköpuðum lítið sjálfir. Það var járn í járn í kvöld og fannst mér vera jafnteflisbragur á leiknum. En þeir voru nógu góðir til að skora
eitt hér í kvöld.“

Ómar Jóhannsson 8, Guðjón Antoníusson 7, Hallgrímur Jónasson 8, Guðmundur Mete 7, Branko Milicevic 7, Marco Kotilainen 7, Jónas Guðni Sævarsson 6, Baldur Sigurðsson 6, Símun Samuelsen 8, Þórarinn Kristjánsson 5 (Nicolai Jörgensen 6), Guðmundur Steinarsson 6 (Högni Helgason -).
Maður leiksins: Hallgrímur Jónasson.

Víkurfréttir
Keflvíkingar voru umtalsvert betri aðilinn í fyrri háfleik en vantaði herslumuninn fyrir framan markið.

Í síðari hálfleik mættu Fylkismenn mun frískari til leiks og nutu meðbyrsins. Þeir áttu nokkrar ágætar sóknir en varnarmenn Keflvíkinga voru vel á verði sem og Ómar Jóhannsson sem átti stórleik í markinu.

Það var hins vegar færeyski töframaðurinn Símun Samúelsen sem sneri leiknum aftur við þegar hann skoraði laglegt mark á 61. mínútu. Keflvíkingar höfðu sótt stíft þegar Jónas lyfti knettinum inn á teiginn þar sem Símun tók við honum og renndi framhjá Fjalari og í netið.

Fótbolti.net
Baldur Sigurðsson var gríðarlega ánægður eftir nauman 1-0 sigur Keflvíkinga á Fylki í kvöld en Mývetningurinn átti frábæran leik á miðjunni, eins og svo oft áður á þessu tímabili.

,,Við erum mjög sáttir.  Það er náttúrulega mikill vindur og Fylkir er með mjög sterkt lið.  Það mátti svosem ekki búast við því að við myndum yfirspila þá hérna.  Þetta var bara mjög mikilvægur sigur í toppbaráttunni,” sagði Baldur við Fótbolti.net eftir leikinn en Keflavík er núna tveimur stigum á eftir FH sem er í fyrsta sætinu sem fyrr.

,,Í fyrri hálfleik vorum við hægir og Stjáni (Kristján Guðmundsson þjálfari) var að impra á okkur að reyna að koma boltanum hraðar af því að Fylkismenn vilja bakk og spila þétta vörn, þá verðum að spila hratt á þá.  Seinni hálfleikurinn var nú ekkert mikið skárri en það kom allavega mark.“

Þá var Baldur sannfærður um að Keflavík geti sett pressu á FH: ,,Við erum komnir með sautján stig, miklu fleiri stig heldur en á sama tíma í fyrra og erum í öðru sæti og núna verðum við að seta pressu á þá.”

Baldur fékk tvö ákjósanleg tækifæri til þess að skora í fyrri hálfleik og var ekki alveg nógu sáttur með nýtinguna: ,,Ég fékk þarna tvö góð færi.  Hann varði reyndar vel skallann hjá mér þarna fyrst en í seinna færinu átti ég bara að seta hann með tánni í hornið.  Þetta var lélegt,” sagði Baldur að lokum.

Gras.is
Guðjón Árni Antoníusson, leikmaður Keflavíkur var sáttur eftir sigur sinna manna í kvöld. Hann sagði þennan sigur gríðarlega mikilvægan og liðið ætlar sér að vera í toppbaráttunni og setja pressu á FH-inga.

Hversu mikilvægur var þessi sigur í kvöld, sérstaklega þar sem að FH virðist vera að tapa sínum leik?
Hann er náttúrulega mjög mikilvægur, þar sem að við ætlum að setja pressu á FH.

Var eitthvað hjá Fylki sem kom þér á óvart?
Nei, bjuggumst við hörkuleik, skoruðum gott mark og héldum því.

Ertu sáttur við leik liðsins í kvöld?
Hefðum mátt spila boltanum hraðar, en við vorum þolinmóðir og það borgaði sig, en Fylkir gerði okkur erfitt með því að liggja aftarlega og leyfa okkur að vera mikið með boltann og svo treystu þeir á skyndisóknir.

Skaginn í næsta leik í beinni á Sýn, Það kemur ekkert nema sigur til greina eða hvað?
Við förum í hvern leik til að vinna. Við vitum hverjum við eigum von á, þeir eru vel skipulagðir og virðast vera búnir að finn kerfi sem er að virka fyrir þá. En við ætlum okkur sækja 3 stig og halda áfram baráttunni um toppsætið, sagði Guðjón sem var maður leiksins í kvöld í annars góðu liði Keflvíkinga.


Keflavíkurvöllur, Landsbankadeildin, 28. júní 2007

Keflavík 1 (Símun Samuelsen 60.)
Fylkir 0
Keflavík (4-4-2):
Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Hallgrímur Jónasson, Branko Milicevic - Marco Kotilainen, Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen - Þórarinn Kristjánsson (Nicolai Jörgensen 46.), Guðmundur Steinarsson (Högni Helgason 88.) 
Varamenn: Bjarki Freyr Guðmundsson, Bjarki Þór Frímannsson, Þorsteinn Georgsson, Sigurbjörn Hafþórsson, Einar Orri Einarsson.
Gul spjöld: Nicolai Jörgensen (76.), Símun Samuelsen (88.)

Dómari: Egill Már Markússon.
Aðstoðardómarar: Áskell Þór Gíslason og Rúnar Steingrímsson.
Eftirlitsmaður: Eyjólfur Ólafsson.

Áhorfendur: 1351.



Símun skorar sigurmarkið.
(Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson / Víkurfréttir)