Fréttir

Knattspyrna | 12. maí 2011

Annað dramatískt jafntefli

Annan leikinn í röð gerðu okkar menn 1-1 jafntefli í Pepsi-deildinni þegar FH-ingar mættu á Nettó-völlinn.  Og aftur réðust úrslitin á lokamínútunum en að þessu sinni var það Keflavík sem jafnaði á dramatískan hátt.  Matthías Vilhjálmsson kom gestunum yfir undir lok leiksins með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu.  Það var hins vegar varamaðurinn Grétar Hjartarson sem tryggði Keflavík annað stigið með marki í blálokin.  Eftir leikinn er Keflavík með 5 stig í 4. sæti deildarinnar sem er reyndar hnífjöfn.

Næsti leikur er útileikur gegn Grindavík mánudaginn 16. maí kl. 19:15.

  • Leikurinn var 43. leikur Keflavíkur og FH í efstu deild.  Þetta var fimmtánda jafntelið í leikjum liðanna, Keflavík hefur unnið 10 leiki en FH 18.  Markatalan er 58-69 fyrir FH.
        
  • Þetta var annað árið í röð sem Keflavík og FH gera 1-1 jafntefli á heimavelli okkar í deildinni.  Tvö árin þar á undan lauk leiknum með 1-0 sigri Keflavíkur en síðasti sigur FH í Keflavík kom árið 2007 þegar þeir sigruðu 2-1.
            
  • Grétar Hjartarson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Keflavík í efstu deild.  Áður hafði pilturinn reyndar skorað 12 mörk fyrir KR og 53 mörk fyrir Grindavík í efstu deild.
      
  • Grétar skoraði fyrir Keflavík eftir að hafa komið inn á sem varamaður en Jóhann Birnir gerði tvö mörk í fyrsta leiknum gegn Stjörnunni eftir að hafa komið inn á.  Varamenn hafa því skorað þrjú af sex mörkum liðsins í deildinni.  Þess má geta að í fyrra skoruðu varamenn 5 af 30 mörkum Keflavíkur í deildinni, árið 2009 voru þau 3 af 38 og árið 2008 skoruðu varamennirnir 13 af 54 mörkum liðsins sem er væntanlega heimsmet.
            

Fótbolti.net
,,Það er alltaf gaman að koma í Keflavík og það var engin undantekning á því í kvöld. En varðandi leikinn þá er ég sársvekktur að hafa ekki fengið þrjú stig," sagði Hólmar Örn Rúnarsson miðjumaður FH eftir 1-1 jafntefli gegn hans gömlu félögum á Keflavíkurvelli í kvöld.

,,Keflavík er með flott lið og það er erfitt að eiga við þá. Þeir berjast svakalega og hafa staðið sig vel í fyrstu leikjunum. Það var sama uppi á teningnum hjá þeim í dag en mér fannst við samt skapa fín færi sérstaklega í seinni hálfleik, sem við áttum að bara að klára betur."
 
Fréttablaðið / Vísir
Keflvíkingar nýttu sér liðsmuninn og jafnaði Grétar Hjartarson leikinn eftir þvögu í teig FH-inga. Skömmu seinna flautar Valgeir dómari til loka leiks. Lokastaðan 1-1 í dramatískum leik.

FH-ingar geta nagað sig í handarbökin yfir því að hafa ekki nýtt sér yfirburðina í seinni hálfleik. Keflvíkingar geta hinsvegar gengið sáttir frá borði því þeir voru undir í baráttunni lengst af en það er ekki spurt að því í fótbolta og refsuðu Keflvíkingar FH-ingum grimmilega. 
Ómar 7, Guðjón 6, Goran 6, Adam 5, Haraldur 7, Einar Orri 5 (Grétar -),  Andri Steinn 5, Jóhann Birnir 4 (Magnús Sverrir -), Hilmar Geir 6, Magnús Þórir 5, Guðmundur 4 (Arnór Ingvi 5).

Morgunblaðið / Mbl.is
Keflavík fékk ekki auðvelda byrjun í mótinu og þegar þriðju umferð er lokið hafa Suðurnesjamenn náð jafntefli gegn KR og FH en fyrirliðinn sagði samt að framhaldið yrði ekkert auðveldara. »Ég held að allir leikir í þessari deild verði erfiðir, hvað sem liðin heita en eftir á að hyggja var gott að fá stig á útivelli gegn KR. Það er samt algjörlega ljóst að við hefðum viljað taka þrjú stig hérna á heimavelli því við viljum vinna alla heimaleiki okkar en í ljósi þess hvernig leikurinn spilaðist mætti segja að jafntefli hafi verið sanngjarnt.«
M: Guðjón, Haraldur, Einar Orri, Guðmundur.

Víkurfréttir
Grétar Ólafur Hjartarson var hetja Keflvíkinga en hann jafnaði leikinn gegn FH fimm mínútum fyrir leikslok og urðu lokaúrslit 1-1 í Pepsi deildinni í knattspyrnu en leikurinn fór fram á Nettó vellinum í Keflavík.

Fyrri hálfleikur var jafn og Keflvíkingar voru mun ákveðnari í öllum aðgerðum á vellinum án þess þó að skapa sér alvöru færi. FH-ingar tóku hins vegar öll völd á vellinum í upphafi síðari hálfleiks og uppskáru mark á 80. mín. eins og fyrr segir. Það var mikil áfall fyrir heimamenn sem höfðu varist mjög vel og fengu FH-ingar nokkur hættuleg færi án þess að ná að klára þau.

„Ég er þokkalega ánægður með byrjunina í mótinu og sáttur með annað stigið í kvöld,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur eftir leikinn.

 

Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 11. maí 2011
Keflavík 1
(Grétar Hjartarson 90.)
FH 1 (Matthías Vilhjálmsson 80.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Goran Jovanovski, Adam Larsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Hilmar Geir Eiðsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 72.), Einar Orri Einarsson, (Grétar Hjartarson 84.), Andri Steinn Birgisson, Magnús Þórir Matthíasson, Guðmundur Steinarsson (Arnór Ingvi Traustason 60). 
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Þór Magnússon, Bojan Stefán Ljubicic.
Gul spjöld: Andri Steinn Birgisson (66.), Haraldur Freyr Guðmundsson (87.).

Dómari: Valgeir Valgeirsson.
Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Birkir Sigurðarson.
Eftirlitsdómari: Jón Sigurjónsson.
Áhorfendur: 1.480.




Gulli rétt á undan Gumma.
(Mynd frá Víkurfréttum)