Annar góður útisigur
Keflavík sigraði Grindavík í gærkvöldi 0-1 í hörkuleik en leikið var í Grindavík. Það var Jóhann Birnir Guðmundsson sem skoraði sigurmarkiðmarkið dýrmæta á 81. mínútu með góðu skoti eftir sendingu frá Guðjóni Árna. Jóhann Birnir hafði rétt áður komið inn á sem varamaður.
Leikurinn byrjaði frekar rólega en þegar á leið færðist meira fjör í leikinn sem einnknndist af mikilli stöðubaráttu. Grindavík lagði áherslu á þétta vörn sem reyndist erfitt fyrir Keflavík að prjóna sig í gegn. Gummi Steinars komst í þokkalegt færi en Óskar í marki Grindvíkinga varði. Magnús Þórir komst svo í dauðafæri og Óskar varði glæsilega frá honum. Keflavík var sterkara en Grindavík fékk færi þegar Ómar varði vel af stuttu færi.
Seinni hálfleikur var fjörugri en sá fyrri. Nokkur hálffæri litu dagsins ljós og Bjarni Hólm fékk dauðafæri en ekki vildi boltinn inn. Ómar varði mjög vel frá Scotty og Magnús Þórir bjargaði með góðri varnarvinnu þegar sóknarmaður Grindvíkinga var kominn einn inn fyrir. Svo kom markið góða frá Jóhanni Birnir og allt varð vitlaust hjá stuðningsmönnum Keflavíkur í stúkunni. Þeir voru fjölmargir og létu vel í sér heyra. Jóhann Birnir átti svo skalla framhjá þegar leiktíminn var að renna út.
Tveir góðir útisigrar og sex stig hjá Keflavík í byrjun móts og liðið hefur haldið markinu hreinu í báðum leikjunum. Næsti leikur er gegn Fylki á fimmtudagskvöldið kemur en Fylkir er einnig með tvo sigra og sex stig. Það er því toppslagur framundan og hvergi gefið eftir.
-
Áhorfendur á leiknum voru 1568 og er það met á Grindavíkurvelli.
-
Jóhann Birnir skoraði 19. mark sitt fyrir Keflavík í efstu deild. Þess má geta að fyrsta mark kappans í efstu deild kom fyrir tæpum fimmtán árum en þá skoraði Jóhann í 2-0 sigri gegn FH þann 5. júlí 1995.
-
Markið í leiknum var fjórða mark Jóhanns gegn Grindavík í efstu deild. Það fyrsta kom árið 1996 og hin komu árin 1997 og 2008. Allir leikirnir hafa endað með sigri Keflavíkur.
-
Hörður Sveinsson lék sinn 100. deildarleik fyrir Keflavík. Hann lék sinn fyrsta leik gegn Fylki 26. júlí 2001. Síðan hefur hann leikið 84 leiki í efstu deild fyrir Keflavík og 16 leiki í B-deild. Hörður er kominn með 23 mörk fyrir Keflavík í efstu deild.
-
Keflavík hefur ekki fengið á sig mark í tveimur fyrstu leikjunum í deildinni. Það gerðist síðast árið 1979 þegar liðið gerði markalaus jafntefli í tveimur fyrstu leikjum sínum, gegn ÍA og ÍBV. Liðið vann síðan Víking 4-0 og fékk fyrsta mark sumarsins á sig gegn Fram í 4. umferðinni. Þá voru liðnar 315 mínútur af mótinu og er það besta upphaf Keflavíkur í efstu deild ef litið er til varnarleiksins. Þess má geta að Gisli Torfason lék í marki liðsins gegn Frömurum vegna meiðslavandræða markvarða liðsins. Hann átti stórleik og fyrirsögn Morgunblaðsins var "Spilaði Gísli sig inn í landsliðið?".
Fótbolti.net
Þessi leikur hefði getað endað með sigri báðum megin en Keflavík náði að skora en heimamenn ekki þrátt fyrir fullt af færum í seinni hálfleik. Keflvíkingar voru þolinmóðir gegn þéttri 5 manna vörn Grindvíkinga og náðu að skora.
,,Það er gull í Hagkaupspoka að eiga mann eins og Jóhann á bekknum," sagði Guðmundur Steinarsson eftir 0-1 sigur hans manna í Keflavík á Grindavík í kvöld en Jóhann Birnir Guðmundsson skoraði sigurmarkið.
,,Þetta var svakaleg vinna og þeir eru með gríðarlega þéttan varnarmúr sem var erfitt að brjóta en við vorum þolinmóðir og höfðum trúna á þessu allan tímann og náðum líka að halda hreinu sem er stórkostlegt."
Fréttablaðið / Vísir
„Það er alltaf gaman að vinna Grindavík. Þetta var svipaður sigur og síðast, við vorum þolinmóðir og höfðum trú á þessu allan tímann,“ sagði Haraldur Freyr Guðmundsson, fyrirliði Keflvíkinga, sem heimsóttu granna sína í Grindavík í gær og náðu í öll stigin þrjú. Eina mark leiksins skoraði varamaðurinn Jóhann Birnir Guðmundsson á 81. mínútu. Tveir bestu leikmenn Grindavíkur tóku út leikbann og munaði um minna. Auðun Helgason og Gilles Mbang Ondo fengu báðir rautt í tapleiknum gegn Stjörnunni í fyrstu umferð.
Ómar 6, Guðjón 7, Alen 5, Bjarni 6, Haraldur 6, Magnús Sverrir 3 (Jóhann Birnir -), Paul 6, Hólmar Örn 7, Magnús Þórir 5, Guðmundur 5, Hörður 4.
Morgunblaðið / Mbl.is
"Það er auðvitað mjög gaman að skora og ekki síst hér. Gerist ekki betra. Annars var leikurinn dæmigerður grannaslagur þar sem ekkert var gefið eftir. Færin voru fá og sanngjörn úrslit ef til vill jafntefli, en svona er boltinn," sagði Jóhann Birnir Guðmundsson, markaskorari Keflvíkinga, eftir leikinn. "Okkur gekk verr í dag að skapa færi en í fyrstu umferðinni. Þetta var öðruvísi leikur en sá fyrsti, mun lokaðri, og liðunum tókst ekki að skapa sér mörg færi."
Þetta er fín byrjun hjá okkur og við höfum oft byrjað vel en nú er bara að halda áfram á sömu braut. Næsti leikur er í Njarðvík, en við mætum Fylki þar vegna þess að það er verið að leggja nýtt gras á völlinn hjá okkur. Það verður gaman og vonandi fjölmenna Njarðvíkingar til að aðstoða okkur," sagði Jóhann.
M: Ómar, Haraldur, Magnús Þórir.
Víkurfréttir / VF.is
Heilt yfir voru Keflvíkingar betri og hættulegri í sóknartilburðum sínum þó þeir hafi ekki leikið eins vel og í Kópavogi í fyrstu umferð. Grindvíkingar léku skipulega og agað og stöðvuðu margar tilraunir Keflvíkinga.
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflvíkur var mjög ánægur með sigurinn. „Þeir komu okkur á óvart með fimm manna varnarlínu og við vorum lengi að átta okkur á því. Með þolinmæði tókst okkur að klára dæmið og ég er mjög ánægður með það hjá strákunum,“ sagði Willum.
Willum sagði þetta vinnusigur og undir það er hægt að taka. Leikurinn bauð ekki upp á mikla skemmtan í fyrri hálfleik en fjörið var meira í þeim síðari. Magnús Þórir Matthíasson var góður í jöfnu liði Keflvíkinga, Guðmundur Steinarsson var ógnandi og vörnin traust þar sem Guðjón Árni var bestur meðal jafninga. Jóhann kom svo inná, sá og sigraði, ef svo má segja.
Pepsi-deild karla, Grindavíkurvöllur, 17. maí 2010
Grindavík 0
Keflavík 1 (Jóhann Birnir Guðmundsson 81.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Jóhann Birnir Guðmundsson 72.) , Paul McShane, Hólmar Örn Rúnarsson, Magnús Þórir Matthíasson, Guðmundur Steinarsson, Hörður Sveinsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Brynjar Örn Guðmundsson Einar Orri Einarsson, Bojan Stefán Ljubicic, Sigurður Gunnar Sævarsson, Ómar Karl Sigurðsson.
Dómari: Kristinn Jakobsson .
Aðstoðardómarar: Sigurður Óli Þórleifsson og Tomasz Jacek Napierajczyk.
Varadómari: Guðmundur Ársæll Guðmundsson.
Eftirlitsdómari: Þórarinn Dúi Gunnarsson.
Áhorfendur: 1568.
Myndir: Jón Örvar Arason og Eygló Eyjólfsdóttir
Strákarnir þakka fyrir stuðninginn.
Jóhann Birnir.