Arnór Ingvi í úrvalsliðinu
Það er okkur sönn ánægja að segja frá því að Arnór Ingvi Traustason var valinn í úrvalsliði fyrstu 11 umferða Pepsi-deildarinnar en valið var kynnt í húsakynnum Ölgerðarinnar í gær . Það var FH-ingurinn Atli Guðnason sem var valinn besti leikmaðurinn, Heimir Guðjónsson besti þjálfarinn, Erlendur Eiríksson besti dómarinn og stuðningsmenn Stjörnunnar þóttu bestu stuðningsmennirnir.
Arnór Ingvi er vel að valinu kominn enda hefur hann leikið geysivel með Keflavík í sumar. Hann hefur leikið alla tólf leiki liðsins í deildinni og skorað í þeim fjögur mörk. Það má ekki gleyma því að Arnór er aðeins 19 ára ganall en hann var valinn í U-21 árs landsliðshóps Íslands fyrr í sumar. Það er ljóst að frammistaða hans hefur vakið athygli víða en Arnór Ingvi æfði á dögunum með norska liðinu Sandnes ásamt Sigurbergi Elíssyni.
Við óskum Arnóri Ingva til hamingju með viðurkenninguna sem og öðrum sem voru verðlaunaðir að þessu sinni. Hægt er að sjá meira um valið á vef KSÍ.