Fréttir

Arnór Ingvi kveður
Knattspyrna | 12. nóvember 2013

Arnór Ingvi kveður

Eins og fram hefur komið hefur Arnór Ingvi Traustason kvatt Keflavík og gengið til liðs við sænska úrvalsdeildarfélagið IFK Norrköping.  Þessar fréttir koma ekki á óvart enda hefur Arnór Ingvi skipað sér í hóp bestu leikmanna Pepsi-deildarinnar og vakið mikinn áhuga erlendra félaga.

Arnór Ingvi er fæddur árið 1993 og er tvítugur.  Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið í lykilhlutverki hjá Keflavík undanfarin ár og á að baki 52 leiki í efstu deild og hefur skorað í þeim 10 mörk auk þess að leika fjóra bikarleiki.  Arnór Ingvi lék sinn fyrsta leik gegn Fram í september 2010, þá 17 ára gamall.  Hann skoraði fyrsta mark sitt í efstu deild gegn ÍBV í síðustu umferð deildarinnar það sumar og var það stórglæsilegt eins og fleiri mörk hans.  Arnór vakti strax mikla athygli fyrir frammistöðu sína og hann varð fljótlega lykilmaður í Keflavíkurliðinu.  Hann var valinn efnilegasti leikmaður liðsins árin 2011 og 2012.  Á síðasta ári fór hann sem lánsmaður til norska úrvalsdeildarliðsins Sandnes Ulf og lék 10 deildarleiki með liðinu.  Í haust var Arnór Ingvi svo valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar.

Arnór Ingvi lék með U-17 og U-19 ára landsliðum Íslands og er nú fastamaður í U-21 árs liðinu sem hefur farið frábærlega af stað í undankeppni Evrópmótsins á þessu ári.  Hann á að baki sex leiki með liðinu og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í sigri liðsins á Kasakstan í haust.  Arnór Ingvi missti hins vegar af síðasta leik liðsins vegna meiðsla sem hann hlaut í síðasta leik sínum með Keflavík.

Knattspyrnudeild þakkar Arnóri Ingva fyrir samveruna og framlag hans til Keflavíkurliðsins og óskar honum góðs gengis á nýjum vígstöðvum.
 


Arnór Ingvi í búningi IFK Norrköping.


Í leik með U-21 árs landsliðinu. (Mynd: fótbolti.net)


Arnór Ingvi á ferðinni með Keflavík í sumar.