Fréttir

Knattspyrna | 30. október 2007

Ástand Reykjaneshallarinnar

Tilkynning til foreldra  !


Ástand Reykjaneshallarinnar hefur ekki farið fram hjá neinum.  Svifryksmengun hefur verið yfir leyfilegum mörkum, af þeim sökum var höllinni lokað til að reyna ráða bót á ástandinu.

Mengunin minnkaði en er ennþá til staðar og hefur Reykjaneshöllin verið opnuð til æfingahalds á undanþágu frá heilbrigðiseftirliti til 1. desember.

Við hjá Barna og unglingaráði teljum okkur skylt að upplýsa foreldra iðkenda um þetta ástand. Fullur skilningur verður sýndur því barni sem getur ekki stundað æfingar við þessar aðstæður. Það kemur ekki til með að hafa áhrif mætingasókn ársins.

Til að minnka svifrykið hefur verið brugðið á það ráð að vökva grasið í höllinni, því ráðleggjum við foreldrum þeirra barna sem æfa þarna núna að senda þau í síðbuxum og í síðerma bolum á æfingu til að minnka líkurnar á sýkingu ef fallið er í grasið.

Tekin hefur verið ákvörðun hjá Reykjanesbæ að kaupa nýtt gras og stefnt er á að nota desembermánuð til að skipta um það í höllinni, jafnvel fyrr ef vel gengur og verða þá engar æfingar þar.  Hvar við æfum á þeim tíma er ekki vitað á þessari stundu en það verður tilkynnt þegar nær dregur.

Augljóslega verða engin mót fyrir áramót og verðum við að skoða hvað hægt er að gera í þeim málum eftir áramótin.

Okkur þykir miður hvernig þetta tímabil hefst hjá Keflavík en það getur bara batnað héðan í frá og við lítum björtum augum á framtíðina.


                                                                                       Barna og unglingaráð Knattspyrnudeildar Keflavíkur