Ástvaldur í góðum gír
Eftir leik Akraness og Keflavíkur kom einn af okkar dyggari stuðningsmönnum og bað leikmenn liðsins um eiginhandaráritun. Sá stuðningsmaður heitir Ástvaldur Ragnar Bjarnason; hann er bundinn hjólastól en kemur á alla þá leiki sem hann mögulega getur, hvort sem þeir eru í Keflavík eða úti á landi. Hann er mikill stuðningsmaður liðsins auk þess sem hann fer á flesta leiki hjá Reyni í Sandgerði enda mikill Sandgerðingur. Þegar leikurinn var búinn kom Ástvaldur til okkar og bað leikmenn að skrifa nöfnin sín á hjól stólsins þar sem hann vildi hafa bæði sín uppáhaldslið á stólnum sínum en leikmenn Reynis voru þegar búnir að skrifa á annað hjól stólsins. Leikmenn gerðu þetta með glöðu geði og fögnuðu um leið sigrinum með Ástvaldi sem var hinn kátasti þegar allir leikmenn og aðstandendur liðsins skrifuðu nöfnin sín. Meðfylgjandi eru myndir sem Jón Örvar tók af Ástvaldi og félögum við þessa virðulegu athöfn.
Ástvaldur og Falur eldhressir.
Piltarnir skrifa hver á fætur öðrum.
Þessir hressu Skagamenn vildu vera með, að sjálfsögðu.
Nöfn Reynismanna voru þegar komin og Ástvaldi ættu að vera
allir vegir færir með Keflavík á öðru hjólinu og Reyni á hinu.