Fréttir

Knattspyrna | 18. ágúst 2003

Auðveldir sigrar hjá 4. flokki

Keflavík mætti Haukum í Íslandsmótinu í 4. flokki s.l. fimmtudag.  Hlutskipti þessara liða hefur verið ólíkt í sumar, Keflavík er sem fyrr efst í riðlinum á sama tíma og Haukar sitja sem fastast á botninum með aðeins 3 stig.  Keflvíkingar urðu fyrir mikilli blóðtöku í síðustu viku þegar Einar Trausti Einarsson meiddist illa á æfingu og verður hann ekki meira með á þessu tímabili.  Einar Trausti hafði spilað mjög vel í vörninni hjá Keflavík í sumar og er það mikið áfall fyrir liðið að missa þennan lykilleikmann núna rétt fyrir lokasprettinn á Íslandsmótinu.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn með miklum látum og eftir aðeins 2 mínútur hafði Björgvin Magnússon skorað fyrsta mark leiksins, tveim mínútum síðar skoraði Helgi Eggertsson gott mark og síðan liðu fjórar mínútur þar til Natan Freyr Guðmundsson bætti þriðja markinu við og staðan var orðin 3-0 eftir aðeins 8 mínútur.  Björgvin Magnússon og Viktor Guðnason bættu síðan við sitt hvoru markinu áður en flautað var til hálfleiks og staðan var því 5-0 í hálfleik.  Síðari hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri, en Keflvíkingar skoruðu þó tvö mörk.  Fyrst skoraði Björgvin Magnússon sitt þriðja mark í leiknum og á lokamínútunni skoraði Einar Orri Einarsson.  Í millitíðinni höfðu Haukar náð að setja eitt mark og lokatölur urðu 7-1 fyrir Keflavík.  Eitthvað létu Haukarnir yfirburði Keflvíkinga fara í taugarnir á sér og var einum leikmanni Hauka vísað af leikvelli með rautt spjald fyrir kjaftbrúk undir lok leiksins.  Hann hafði skömmu áður fengið gult spjald fyrir munnsöfnuð en lét sér ekki segjast.

Keflavík spilaði mjög vel í byrjun leiksins og sýndu hversu vel þeir geta spilað.  En það getur verið erfitt að halda einbeitingunni þegar mótspyrnan er lítil og þegar leið á leikinn misstu Keflvíkingar einbeitinguna og leikurinn datt niður í meðalmennsku.
Maður leiksins: Björgvin Magnússon. Björgvin spilaði mjög vel í leiknum skoraði 3 mörk og skapaði oft mikinn usla í vörn Hauka með hraða sínum. 

Núna þegar ein umferð er eftir þá eru Keflvíkingar efstir með 20 stig eftir 8 leiki, Stjarnan er næst með 19 stig og Leiknir er í 3ja sæti með 15 stig eftir 7 leiki.  Síðasti leikur Keflvíkinga í riðlinum er á fimmtudag þegar liðið leikur við Selfoss á Selfossi og með sigri tryggir Keflvíkingar sér sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitillinn.

Keflavík og Haukar mættust líka í keppni B-liða og líkt í fyrri leiknum unnu Keflvíkingar auðveldan 7-3 sigur eftir að staðan hafði verið 5-0 í hálfleik.  Mörk Keflvíkinga skoruðu Björn Geir Másson 3, Ómar Hjaltason 3 og Fannar Sævarsson 1.
Maður leiksins: Björn Geir Másson.  Björn Geir tók nýlega  fram skóna að nýju eftir langt hlé frá knattspyrnunni og er að komast í sitt gamla form.  Hann átti stórleik á miðjunni og virðist leika best þar sem mesta baráttan er.  Auk þess skoraði Björn Geir 3 mörk í leiknum.