Auðveldur sigur í erfiðum leik
3. flokkur karla lék gegn Leikni í síðustu viku og unnu auðveldan sigur gegn arfaslöku liði Leiknis 4-2. Leikurinn var með þeim skrautlegri sem sést hafa, aðallega vegna lélegrar dómgæslu sem var mjög hlutdræg. Áður en leikurinn hófst gerðu Keflvíkingar athugasemdir við að engir línuverðir voru á leiknum og kvörtuðu yfir því við dómarann. Hann svaraði því á þann veg að betra væri að hafa einn góðan dómara en þrjá lélega og hann vildi ekki hafa línuverði! Eins og það hljómar fáránlega þá er ekkert hægt að gera við því og við treystum á orð dómarans að hann væri góður, en við komumst að öðru fljótlega eftir að leikurinn hófst. Það var allt dæmt gegn okkar mönnum á meðan Leiknismenn fengu aukaspyrnur hvað eftir annað upp í hendurnar. Þrátt fyrir þetta leiddu Keflvíkingar 3-0 í hálfleik og komust í 4-0 í upphafi síðari hálfleiks. Þá fyrst byrjaði skrípaleikurinn hjá svartklædda manninum. Hann gaf Leiknismönnum tvær vítaspyrnur á silfurfati og önnur þeirra var dæmd eftir að Leiknismaður braut á einum Keflvíkingnum! Staðan var skyndilega orðin 4-2 og allt gat gerst eins og staðan var. Til að gera möguleika Leiknismanna meiri ákvað dómarinn að reka einn leikmann Keflavíkur af leikvelli, af hvaða ástæðu veit hann einn. Ekki voru fleiri mörk skoruð í leiknum og þrjú stig í höfn. Mörk Keflvíkinga í leiknum skoruðu Bjarki Frímannsson 2, Natan Freyr Guðmundsson og Björgvin Magnússon. Þá lék Aron Örn Reynisson sinn fyrsta leik með Keflavík í þessum leik, en hann gekk til liðs við Keflavík frá Reyni Sandgerði í vikunni. Aron átti mjög góðan leik í vörninni og styrkir liðið mikið.Það að vinna leikinn 4-2 þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður, sýnir vel styrkleikamuninn á liðunum. Það er fátt sem getur komið í veg fyrir að Leiknismenn falli um riðill í sumar, en þeir virðast ætla að reyna að bjarga sér á heimadómgæslu og er það sorglegt og sýnir mikið metnaðarleysi hjá félaginu og jafnframt mikla vanvirðingu gagnvart andstæðingunum.
Byrjunarliðið: Teitur Albertsson, Aron Örn Reynisson, Natan Freyr Guðmundsson, Björgvin Magnússon, Viktor Guðnason, Garðar Eðvaldsson, Gísli Gíslason, Bjarki Frímannsson, Einar Orri Einarsson, Þorsteinn Þorsteinsson og Ari Haukur Arason.
Varamenn: Theodór Kjartansson, Fannar Óli Ólafsson, Stefán Lynn Price og Garðar Arnarson.