Baldur í Morgunblaðsviðtali
Í umfjöllun Morgunblaðsins um 7.-12. umferð Landsbankadeildarinnar er viðtal við Baldur Sigurðsson, hinn öfluga leikmann Keflavíkurliðsins. Fyrir þá sem ekki sáu viðtalið birtum við það hér með góðfúslegu leyfi Morgunblaðsins.
Mývetningurinn Baldur Sigurðsson hefur leikið vel með Keflvíkingum
Lið Keflavíkur hefur vakið athygli í Landsbankadeildinni fyrir skemmtilega knattspyrnu. Einn þeirra leikmanna sem hefur látið ljós sitt skína að undanförnu er miðjumaðurinn úr Mývatnssveitinni, Baldur Sigurðsson. Hann gekk í lið með Keflvíkingum í fyrra og lék alla leiki liðsins í deildinni og hefur gert það í sumar líka. Hann hefur því leikið 20 leiki í efstu deild og skorað tvö mörk. Auk þess á hann 5 landsleiki með U-19 ára landsliðinu.
Eftir Skúla Unnar Sveinsson skuli@mbl.is.
Baldur er fæddur og uppalinn í Mývatnssveit og steig sín fyrstu skref þar sem knattspyrnumaður. "Ég spilaði með Mývetningi, það hét raunar Eilífur á sínum tíma en þarna voru tvö íþróttafélög í 470 manna sveitafélagi og hvort með sig með sína aðstöðu. Þetta var mjög furðulegt en síðan var þetta sameinað. Svo þegar ég var orðinn fjórtán ára eða svo var alltaf keyrt til Húsavíkur á æfingar og ég lék með Völsungi alveg þangað til í fyrra að ég kom til Keflavíkur," segir Baldur.
Hann segist kunna mjög vel við sig í Keflavík. "Það hafa allir tekið manni mjög vel. Þetta er fínt lið mikið af ungum strákum og svo skemmdi það ekki fyrir að ég komst mjög snemma inn í þetta hjá þeim þegar ég kom í fyrra. Það var raunar eins og ég gerði ráð fyrir. Það voru ein fjögur eða fimm lið sem vildu fá mig þegar ég kom suður en ég reiknaði með því að fá að spila mikið hérna þar sem Keflavík vantaði leikmenn. Það gekk allt eftir."
Hafði aldrei leikið í vörninni
Baldur hefur mest spilað á miðjunni hjá Keflvíkingum en einnig talsvert í vörninni. Þegar hann kom til Keflavíkur hafði hann hins vegar aldrei leikið annars staðar en á miðjunni. "Kenneth meiddist á undirbúningstímabilinu og við vorum með Buddy Farah og hann var í vörninni með Mete [Guðmundi Viðari Mete] og ég á miðjunni. Hann meiddist í öðrum leiknum og ég var þá settur í vörnina. Kenneth kom síðan til baka og ég var þá færður framar enda eru þeir Kenneth og Mete frábærir saman þarna í vörninni.
Ég hafði aldrei spilað vörn áður en ég kom til Keflavíkur. En í fyrra vantaði okkur varnarmann um tíma og Stjáni [Kristján Guðmundsson þjálfari] talaði við mig og spurði hvort ég gæti spilað í vörninni og það þróaðist síðan þannig að ég spilaði nánast allt síðasta tímabil í vörninni," segir miðjumaðurinn.
En hvort ætli sé skemmtilegra, að vera í vörn eða á miðjunni? "Ég hef alltaf verið miðjumaður og held ég kunni því betur, en samt var fínt að vera í vörninni. Ég fann mig eiginlega ekki á miðjunni í fyrra en gekk ágætlega í vörninni. Það hefur gengið ágætlega núna, bæði á miðjunni og líka í vörninni þegar ég hef farið þangað. En maður er meira í boltanum þegar maður er á miðjunni og maður fær meira að sækja þar en þegar maður leikur í vörninni."
Fleiri á "vitlausum" stöðum
Félagi Baldurs frá Húsavík, vinstri bakvörðurinn Hallgrímur Jónasson, hefur alla jafna leikið á miðjunni, en hann hefur sýnt fína takta sem vinstri bakvörður hjá Keflvíkingum að undanförnu. "Hann er svipaður leikmaður og ég, svona vinnusamur miðjumaður. Hann er skynsamur leikmaður sem getur nánast spilað hvaða stöðu sem er. Hann spilar fyrir liði og það er raunar það sem einkennir okkur dálítið. Það er engin stjarna hjá okkur, heldur leggja menn sig fram við að spila allir fyrir liðsheildina. Um leið og allir eru tilbúnir að hlaupa fyrir hver annan gengur vel," segir Baldur.
Hann segir að árangurinn hjá liðinu sé svipaður og hann hafi búist við. "Við fengum fullt af útlendingum og væntingar voru um að við yrðum með í baráttunni um titilinn og bikarinn. Nú eru nánast allir erlendu leikmennirnir farnir, en liðið versnaði ekki við það - það hefur bara gengið betur ef eitthvað er. En það er leiðinlegt að FH-ingar skuli vera komnir svona langt á undan. En það þýðir bara baráttu um annað sætið. FH er reyndar ekki eins sterkt lið og í fyrra enda missti það marga í meiðsli. En þetta hefur dottið skemmtilega fyrir þá í sumar og þeir hala inn stigum. Daði varði tvær vítaspyrnur á móti okkur og þar komu þrjú stig, hann varði síðan víti á móti Skaganum um daginn og þar komu önnur þrjú. Ég veit ekki hvort þetta sé meistaraheppni sem fylgir þeim, en það er í það minnsta ljóst að þeir eru svo gott sem orðnir meistarar."
Skjóta mest og skora mest
Hið unga lið Keflavíkur er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar og mætir Víkingi í undanúrslitum bikarkeppninnar. Léttleikinn hefur svifið yfir vötnum hjá liðinu í sumar og greinilegt að leikmann hafa gaman af því sem þeir eru að gera. Liðið hefur skotið mest allra liða að marki mótherjanna og hitt það oftast og gert flest mörk allra. Kristján Guðmundsson þjálfari sagði eftir sigurinn á Grindavík á dögunum að loksins hefði tekist að finna jafnvægið á milli varnar og sóknar. Það er rétt hjá Kristjáni því í fyrra gerðu Keflvíkingar 28 mörk í deildinni og fengu 31 á sig. Núna hefur liðið gert 23 mörk og fengið 12 á sig og í umferðum 7. til 12. í Landsbankadeildinni gerðu Keflvíkingar 15 mörk og fengu á sig 5. Ekki slæmur árangur það.
"Þetta hefur gengið ágætlega en það er fljótt að telja þegar við vinnum Breiðablik 5:0 og ÍBV 6:2. Ef við náum að skora snemma í leik virðist allt opnast því það er mikið um léttleikandi menn í liðinu og með þá Gumma, Tóta og Stebba frammi gengur það vel því þeir geta eiginlega skorað þegar þeir vilja," segir Baldur og telur hér upp fyrirliðann Guðmund Steinarsson, Þórarin Kristjánsson og Stefán Örn Arnarson.
Baldur er búinn að skora tvisvar í sumar og hefði hæglega getað bætt því þriðja við á móti Grindavík, en þá sýndi hann mikla yfirsýn og yfirvegun og renndi boltanum á Stefán Örn félaga sinn. "Ég sá hann aldrei, en hann öskraði svo rosalega hátt að ég þorði ekki annað en gefa hann. Ég ætlaði að skora sjálfur en hann öskraði á boltann og ég gaf hann. Ég hefði ekki verið ánægður ef það hefði verið varnarmaður á milli, en þetta var vel gert hjá honum," sagði Baldur.
Hann gerir lítið úr því þegar það er nefnt við hann að margir telji liðið leika skemmtilegustu knattspyrnuna. "Tja, ég veit ekki hvað skal segja, eiginlega bæði og. Leikurinn við Grindavík var ekki okkar besti leikur, en við viljum spila sóknarbolta og láta boltann ganga. Leikurinn uppi á Skaga þar sem bæði lið spiluðu sóknarbolta og úr varð skemmtilegur 4:3 leikur. Í síðustu umferðum hefur þetta gengið vel hjá okkur og við höfum spilað vel."
Fór bara á héraðsmótin
Baldur er eins og áður kemur fram úr Mývatnssveitinni. "Þar var bara 12 ára og yngri og 13-16 ára. Þá var ekki farið á ESSO-mót og Shell-mót heldur bara á einhver héraðsmót þannig að ég fékk ekki tækifæri til að fara á þessi stóru mót og sakna þess virkilega að hafa ekki upplifað það."
Sex umferðir eru eftir af deildinni. "Það verður erfitt fyrir FH að tapa þessu þannig að ég á von á skemmtilegri baráttu um annað sætið en þar eru ein fjögur til fimm lið sem munu blanda sér í þá baráttu og við ætlum að vera eitt þeirra. Valsmenn virðast sterkir núna og verða þarna líka. Við ætlum okkur síðan að verða bikarmeistarar," sagði Baldur, sem er þessa dagana á fullu að lesa fyrir próf í verkfræði í Háskólanum en þar byrjaði hann í fyrra. "Maður klúðraði einhverju í fyrrahaust og verður að bæta fyrir það núna," segir miðjumaðurinn og spurður hvort hann gengi með atvinnumanninn í maganum stóð ekki á svari: "Jú, jú, gera það ekki allir?"
Baldur í Evrópuleiknum gegn Dungannon í Belfast.
(Mynd: Jón Örvar Arason)