Fréttir

Knattspyrna | 14. ágúst 2004

Baráttusigur á Víkingum

Keflavíkurliðið vann frábæran sigur á Víkingum á útivelli í gærkvöldi.  Eftir að hafa lent 0-2 undir sneru strákarnir leiknum svo sannarlega sér í vil og fóru með sigur af hólmi, 3-2.  Það var Þórarinn Kristjánsson sem hélt áfram þar sem frá var horfið í síðasta leik; strákurinn átti enn einn stórleikinn og skoraði öll þrjú mörkin.  Fyrsta þrenna Tóta í deildarleik og hann er nú annar markahæstur í Landsbankadeildinni með 8 mörk.  Þess má geta að með þrennunni í gær er Þórarinn nú fjórði markahæsti leikmaður Keflavíkur í efstu deild með 32 mörk en hann fór upp fyrir Jón Ólaf Jónsson á listanum en hann skoraði 31 mark með Keflavík á sínum tíma.  Þórarinn á nokkuð í land með að ná þeim þremur efstu en Ragnar Margeirsson skoraði 48 mörk, Óli Þór Magnússon 57 og síðast en ekki síst skoraði Steinar Jóhannsson 72 mörk fyrir Keflavík í efstu deild.

Mynd: Þorgils Jónsson / Víkurfréttir

Keflavíkurliðið er nú komið í 3. sæti deildarinnar með 21 stig en það gæti breyst um helgina þegar 14. umferð Landsbankadeildarinnar lýkur.  Liðið hefur verið að leika vel í undanförnum leikjum og virðist vera komið á sama skrið og í upphafi móts.  Nú er aðeins spurningin um að halda þessari siglingu til loka tímabilsins en það er ljóst að liðið hefur alla burði til þess.

Víkingsvöllur, 13. ágúst 2004
Víkingur 2 (Daníel Hjaltason 3. víti, Viktor Bjarki Arnarsson 24.)
Keflavík 3 (Þórarinn Kristjánsson 40. víti, 68., 70.)

Keflavík (4-4-2): Magnús Þormar - Guðjón Antoníusson, Sreten Djurovic, Stefán Gíslason, Ólafur Ívar Jónsson - Hólmar Örn Rúnarsson (Mehmetali Dursun 86.), Ingvi Rafn Guðmundsson (Zoran Ljubicic 65.), Jónas Guðni Sævarsson, Scott Ramsay - Þórarinn Kristjánsson, Guðmundur Steinarsson (Hörður Sveinsson 65.)

Gul spjöld: Guðmundur Steinarsson (5.)

Dómari: Jóhannes Valgeirsson
Aðstoðardómarar: Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Eyjólfur M. Kristinsson
Eftirlitsdómari: Ólafur Sigurbjörn Magnússon