Betra liðið en bara jafntefli
Það var flott boltaveður þegar Egill Már Markússon dómari flautaði til leiks gegn Víkingum í Víkinni í gærkvöldi. Bæði lið voru meðvituð um mikilvægi leiksins og byrjuðu varlega. Keflvíkingar fóru þó betur af stað og náðu góðum tökum á leiknum. Guðmundur Steinarsson fékk tvö ágætis færi en brást bogalistinn. Hólmar Örn átti hörkuskot í stöng og Baldur skaut yfir úr dauðafæri. Víkingar fengu sitt fyrsta og eina færri fyrri hálfleiks þegar Ómar Jóhannsson varði góðan skalla af stuttu færi. Guðmundur Steinarsson skoraði svo á 43. mínútu eftir sendingu frá Simun. Guðmundur lék laglega á varnarmenn Víkinga og setti hann í fjærhornið. Þannig var staðan í hálfleik en hefði hæglega getað verið 0-3.
Keflvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og áttu nokkur hálffæri. En á 55. mínútu fengu Víkingar aukaspyrnu þó nokkuð fyrir utan teiginn og Viktor Bjarki setti hann framhjá vegg og í bláhornið, 1-1. Þórarinn Kristjánsson kom inn á hjá Keflavík og var ekki lengi að skapa sér dauðafæri en skalli hans fór naumlega framhjá. Víkingar náðu tökum á leiknum á tímabili en náðu ekki að skapa sér neitt að ráði. En það voru Keflvíkingar sem gerðu harða hríð að marki Víkings síðustu 10 mínúturnar en það dugði ekki til.
Lokastaða 1-1 sem olli vonbrigðum enda betra liðið á vellinum. En það eru mörkin sem telja.
Undir lok leiksins lenti Baldur Sigurðsson í skallaeinvígi og fékk þungt högg á höfuðið og varð að fara útaf. Eftir leik var Baldur farinn að rugla þessa líka vitleysuna og menn sáu sér ekki annað fært en að senda hann á sjúkrahús. Baldur fór einnig á sjúkrahús í síðasta leik gegn ÍBV. Eftir góða skoðun lækna og myndatökur kom Baldur með okkur heim og var okkur ráðlagt að passa vel upp á hann næstu daga. Það var sett í hendur Hadda sem mun örugglega sjá um vin sinn og félaga og mun því Baldur hvíla sig á eldamennsku og þvotti á heimili sínu næstu daga.
Ég get ekki endað þetta án þess að minnast á stuðninginn sem Keflavík fékk í þessum leik. Hann var virkilega góður hjá þessum fjölmörgu Keflvíkingum sem komu og studdu liðið sitt fram á síðustu mínutu. Við þökkum fyrir það.
Svo fjölmennum við á Skagann sunnudaginn 23. júlí þegar við mætum ÍA í bikarnum og þar ætlum við okkur stóra hluti.
Keflavík: Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustafsson, Hallgrímur Jónasson - Baldur Sigurðsson (Magnús Þorsteinsson 90.) Jónas Guðni Sævarsson, Simun Samuelssen, Hólmar Örn Rúnarsson - Guðmundur Steinarsson (Ólafur Jón Jónsson 64.), Stefán Örn Arnarsson (Þórarinn Kristjánsson 58.)
Ónotaðir varamenn: Magnús Þormar, Einar Orri Einarsson, Branislav Milicevic, Þorsteinn Atli Georgsson.
Dómari: Egill Már Markússon
Aðstoðardómarar: Gunnar Gylfason og Einar Sigurðsson.
Áhorfendur: 959
JÖA