Bikardraumurinn úti
Keflavík tapaði í gær fyrir Breiðablik 2-3 í undanúrslitum VISA-bikarkeppninnar. Þar með er draumurinn úti um að spila til úrslita þetta árið. Breiðablik var komið í 0-2 eftir 13 mínútur og varnarleikur okkar manna ekki góður. Guðjón Árni minnkaði muninn með góðu marki á 22. mínútu og Símun jafnaði leikinn á 26. mínútu. Keflavík var að ná undirtökunum og var betra liðið en ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik.
Mikil barátta var hjá báðum í byrjun seinni hálfleiks og leikurinn fjörugur. En skelfileg varnarmistök um miðjan hálfleikinn kostuðu okkur sigurinn og drauminn um að spila úrslitaleikinn. Símun og Gummi Steinars fóru meiddir út af í seinni hálfleik og er óvíst um þá á miðvikudaginn kemur þegar við mætum Grindvíkingum á Sparisjóðsvellinum í Pepsí-deildinni.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Símun Samuelsen (Hörður Sveinsson 70.), Jón Gunnar Eysteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson fyrirliði, Jóhann Birnir Guðmundsson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 58.), Haukur Ingi Guðnason, Guðmundur Steinarsson (Nicolai Jörgensen 78.).
Varamenn: Ómar Jóhannsson, Einar Orri Einarsson, Brynjar Guðmunsson, Sverrir Þ Sverrisson.
Áhorfendur: 2050.
Dómari: Þóroddur Hjaltalín Jr.
Kristján þjálfari var í viðtali á fótbolti.net og birtum við það hér með þeirra leyfi:
Þjálfari Keflvíkinga var ekki upplitsdjarfur eftir tap sinna manna í dag enda bikarinn ansi mikilvægur fyrir Keflvíkinga sem hafa ekki náð sér á strik í sumar. Keflvíkingar byrjuðu leikinn afar illa en Kristján telur það ekki hafa haft það mikil áhrif því þeir hefðu jafnað strax í kjölfarið.
,,Það getur vel verið að það hafi kostað en við jöfnuðum leikinn og vorum með hann eftir að við jöfnuðum og byrjuðum seinni hálfleikinn mjög vel. Við vorum að gera það sem var laggt upp með þangað til að við gáfum þeim sigurmarkið.”
Kristján telur að sigur Blika hafi verið sanngjarn enda hafi sitt lið gert of mikið af mistökum sem ekki er hægt að komast upp með. ,,Er það ekki alltaf sanngjarnt hvernig sem þetta fer. Við gerðum þessi stóru mistök og það er ekki hægt að verðlauna menn fyrir svona.”
Þar sem Keflvíkingar hafa ekki náð að fylgja eftir góðum árangri frá því í fyrra var bikarinn því ansi mikilvægur fyrir þá til að fá eitthvað út úr sumrinu. En Kristján bendir líka á þá staðreynd að nú sé nánast ómögulegt fyrir þá að ná sér í Evrópusæti.
,,Auðvitað var bikarinn mikilvægur en það sem meira er að það er nánast ógjörningur núna að ná í Evrópusæti í deildinni og því var þetta alveg gríðarlega mikilvægt að komast í úrslitaleikinn og vinna hann líka til að fá Evrópusætið.”
Keflvíkingar misstu marga leikmenn eftir síðasta tímabil og hafði það gríðarlega áhrif á liðið. Ætli liðið sér að byggja ofan á þetta sumar er mikilvægt fyrir þá að lenda ekki aftur í því að missa menn frá sér í gríð og erg. Kristján er hæfilega bjartsýnn á að svo verði ekki.
,,Þeir eru lang flestir á samning en ég held að það séu einhverjir þrír sem að eru samt lausir núna eftir tímabilið en maður veit aldrei hvernig þetta fer. En eins og þú segir þá voru gríðarlega miklar breytingar á mannskap eftir síðasta tímabil og að sjálfsögðu kemur það niður á liðinu.”