BIKARINN: Bikarsaga Keflavíkur
Lið Keflavíkur hafði leikið sjö sinnum í undanúrslitum bikarkeppninnar áður en það lék sinn fyrsta úrslitaleik árið 1973. Það ár hafði Keflavík mikla yfirburði í deildinni undir stjórn enska þjálfarans Joe Hooley. En ekki tókst að landa bikarnum líka og niðurstaðan varð 1-2 tap gegn Fram í úrslitunum. Tveimur árum síðar tóksta að bæta úr því og liðið varð bikarmeistari í fyrsta sinn. Varnarjaxlinn Einar Gunnarsson skoraði eina mark úrslitaleiksins gegn ÍA. Skagamenn töpuðu þar sínum sjötta bikarúrslitaleik í röð og nú hófst svipuð þrautaganga hjá Keflavík. Árið 1982 tapaði liðið 1-2 gegn Skagamönnum eftir framlengingu og 1985 lék liðið aftur til úrslita og tapaði nú gegn Fram, 1-3. Þremur árum síðar var komið að öðru Reykjavíkurliði og í þetta sinn tapaðist úrslitaleikur gegn Val 1-3. Árið 1993 lék Keflavík sinn sjötta bikarúrslitaleik og tapaði 1-2 gegn ÍA. Eftir sex úrslitaleiki hafði bikarinn aðeins einu sinni endað í Keflavík en það breyttist loksins árið 1997. Eftir tvo spennandi úrslitaleiki gegn ÍBV hafðist sigur í vítaspyrnukeppni. Aftur var það reyndur varnarjaxl sem tryggði Keflavík bikarinn þegar Kristinn Guðbrandsson skoraði úr síðustu vítaspyrnunni. Næstu ár gekk liðinu ekki sem skyldi í bikarkeppninni en það beyttist árið 2004 þegar liðið krækti í bikarinn í þriðja sinn. Í úrslitaleiknum vannst 3-0 sigur á KA þar sem Þórarinn Kristjánsson skoraði tvö markanna og Hörður Sveinsson bætti þriðja markinu við undir lok leiksins.
Leið Keflavíkurliðsins í bikarúrslitin var nokkuð óvenjuleg þetta árið. Í 16 liða úrslitunum heimsótti liðið Leikni í Grafarvoginn og hafði nokkuð öruggan 3-0 sigur. Stefán Örn Arnarson skoraði tvö mörk og Guðmundur Steinarsson eitt. Aftur var komið að útileik í 8 liða úrslitunum og að þessu sinni vannst 4-3 háspennusigur á Akranesi. Þar skoraði Guðmundur Steinarsson tvö mörk og þeir Þórarinn Kristjánsson og Símun Samuelsen eitt mark. Í undanúrslitum var aftur komið að stórsigri, að þessu sinni á Víkingum á Laugardalsvelli. Lokatölur urðu 4-0; aftur skoraði Guðmundur Steinarsson tvö mörk og Jónas Guðni Sævarsson og Þórarinn Kristjánsson eitt mark hvor. Guðmundur hefur því skorað í öllum bikarleikjum sumarsins.
Bikarmeistaratitlinum fagnað árið 2004.
(Mynd: Jón Örvar Arason)