BIKARINN: Hitt og þetta um úrslitaleikinn
Úrslitaleikurinn fer að sjálfsögðu fram á hlutlausum velli en dregið er um hvort liðið telst heimalið. Það kom í hlut KR-inga og því leika Keflvíkingar í rauðu búningunum að þessu sinni. KR-liðið leikur þá í Newcastle-búningunum.
Leikið verður til þrautar í úrslitaleiknum. Ef jafnt verður eftir venjulegan leiktíma, verður framlengt í 2 x 15 mín. Ef enn verður jafnt eftir framlengingu, verða úrslit knúin fram með vítaspyrnukeppni.
Dómari leiksins verður Jóhannes Valgeirsson, aðstoðardómarar þeir Eyjólfur Ágúst Finnsson og Sigurður Óli Þórleifsson en varadómari Erlendur Eiríksson. Eftirlitsmaður KSÍ á leiknum er Gunnar Randver Ingvarsson.
Heiðursgestur leiksins verður Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Sigurvegarinn fær farandbikar til varðveislu í eitt ár sem gefinn er af VISA Ísland og verður nú keppt um í 4. sinn, ásamt eignarbikar frá VISA Ísland. Þá fá leikmenn beggja liða verðlaunapening og veifu til minningar um leikinn.
Leikurinn verður 131. leikur Keflavíkur í bikarkeppninni. Keflavík hefur unnið 84 leiki en tapað 43, þremur leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 293-144 fyrir Keflavík. Eðli málsins samkvæmt verður að taka árangur í bikarkeppnum með ákveðnum fyrirvara vegna þess að aðeins er hægt að tapa einum bikarleik á hverju ári.
Bikarkeppni karla fór fyrst fram 1960 og er keppnin í ár því sú 47. í röðinni.
KR-ingar hafa aðeins skorað 3 mörk í jafn mörgum leikjum á leið sinni í úrslitaleik VISA-bikarsins í ár, en jafnframt einungis fengið á sig 1 mark, gegn ÍBV í 8-liða úrslitum. Keflvíkingar hafa verið duglegir við að skora og hafa 11 sinnum sett knöttinn í netið hjá andstæðingum sínum, en fengu á sig 3 mörk gegn Skagamönnum í 8-liða úrslitum.
Keflvíkingar unnu fyrri viðureign liðanna í deildinni í sumar, 3-0 á Keflavíkurvelli, en á KR-vellinum gerðu liðin 2-2 jafntefli.
Þjálfarar og fyrirliðar ræða úrslitaleikinn. Gunnlaugur, Teitur, Kristján og Guðmundur.
(Mynd: Jón Örvar Arason)