Fréttir

Knattspyrna | 27. ágúst 2006

Bikarleikur gegn Víkingum á mánudag kl. 20:00

Keflvíkingar mæta Víkingum á mánudagskvöldið 28. ágúst kl. 20:00.  Þetta er leikur í undanúrslitum VISA-bikarkeppninnar og leikið verður á Laugardalsvelli.  Liðin hafa mæst tvisvar í sumar í Landsbankadeildinni; og við unnum 2-1 í Keflavík 2-1 og leikurinn í Víkinni endaði með 1-1 jafntefli.  Báðir voru þetta hörkuleikir svo að það er von á góðum og skemmtilegum leik á mánudag.  Keflvíkingar hafa sigrað þessa keppni þrisvar sinnum, síðast 2004.  Víkingar hafa tvisvar sinnum spilað til úrslita, árin 1967 og 1971 og hömpuðu bikarnum seinna árið þegar þeir unnu Breiðablik 1-0 í úrslitaleiknum.

Keflavík sló út Leikni á útivelli í 16 liðaúrslitunum 0-3 og liðið sigraði síðan ÍA 3-4 í 8 liða úrslitum, einnig á útivelli, í hörkuleik sem tók sinn toll.  Víkingur fór á Kaplakrika í 16 liða úrslitunum og gerði sér lítið fyrir og sló út Íslandsmeistarana FH 1-2.  Í 8 liða úrslitum sló Víkingur lið Vals út 1-2 í hörkuleik en Valsmenn voru þá í 2. sæti deildarinnar.

Ég má endilega koma því að Víkingur á heimaleikjaréttinn og ætti því að spila í sínum svart/rauðu búningum og þar af leiðandi ætti Keflavík að mæta í sínum öðrum varabúningi sem er ekki til.  Sá blái og sá rauði hefðu ekki dugað í leikinn.  En Víkingar gerðu sér lítið fyrir og buðu okkur að spila í okkar aðalbúningum og þeir í sínum alhvítu varabúningum.  Þetta kalla ég samvinnu af bestu gerð og þökkum við Víkingum fyrir þetta einstaka boð.

Það er von okkar að sem flestir sjái sér fært að mæta á leikinn því góður stuðningur kemur okkur nokkuð langt í leik sem þessum.  Það tekur einhverjar 40 mínútur að renna á völlinn frá Keflavík svo að það ætti ekki að vera mikið mál.  Stuðningurinn hefur svo mikið að segja fyrir okkar lið og við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Dómari leiksins verður Garðar Örn Hinriksson, aðstoðardómarar Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson, varadómari Gylfi Þór Orrason og eftirlitsmaður KSÍ er Valur Benetiktsson.

Seinni leikur undanúrslitanna er leikur Þróttar og KR sem fer fram á Laugardalsvelli á þriðjudagskvöld..

Nokkrir bikarmolar:
»
Undanúrslitaleikir í bikarkeppni karla fara nú báðir fram á Laugardalsvelli í fimmta sinn.

» Landsbankadeildarliðin komu inn í 16 liða úrslitin þannig að Þróttur hefur spilað tveimur leikjum meira en hin liðin þrjú.

» Sýn-stúkan verður notuð í leiknum.  Stuðningsmenn Keflavíkur verða staðsettir í norðurhluta stúkunnar og Víkingar í suðurhluta hennar.

» Leikið verður til þrautar í undanúrslitaleikjunum.  Ef jafnt verður eftir venjulegan leiktíma verður framlengt í tvisvar sinnum fimmtán mínútur.  Ef enn er jafnt verður gripið til vítaspyrnukeppni.

Allir Keflvíkingar að mæta og öskra: ÁFRAM  KEFLAVÍK!!

JÖA

Keflavík og Víkingur hafa aðeins tvisvar mæst áður í bikarkeppni KSÍ.  Það eru óvenjufáir leikir miðað hve lengi þessi lið hafa verið í efstu deild.  Til að mynda höfum við mætt ÍA 14 sinnum í bikarnum, Fram og ÍBV 10 sinnum og Val og FH 6 sinnum.  Keflavík og Víkingur mættust fyrst í 8 liða úrslitum keppninnar árið 1975.  Keflavík vann þá 2-0 á Melavellinum og fór síðan alla leið og vann bikarinn í fyrsta sinn.  Það voru þeir Steinar Jóhannsson og Einar Gunnarsson sem skoruðu mörkin en það var einmitt Einar sem tryggði Keflavík síðar bikarinn með eina marki úrslitaleiksins gegn ÍA.  Keflavík og Víkingur drógust næst saman í bikarnum árið 1981 en það ár urðu Víkingar Íslandsmeistarar en Keflavík sigraði í 2. deild.  Liðin léku saman í 16 liða úrslitum á Keflavíkurvelli og þrátt fyrir að vera deild neðar vann Keflavík stórsigur, 4-1.  Magnús Garðarsson skoraði þrennu í leiknum og Óli Þór Magnússon eitt mark.  Ómar Torfason skoraði fyrir Víking.  Keflavík mætti síðan Frömurum í 8 liða úrslitum og tapaði 0-1.

Hér að neðan má sjá umfjöllun Morgunblaðsins um leiki liðanna í bikarkeppninni.